Fara í efni
Íþróttir

SA-konur lentar undir í einvíginu við Fjölni

Fjölniskonur fagna sigri í Skautahöllinni á Akureyri í kvöld. Þær eru komnar yfir í einvíginu og nú er sigur í Egilshöllinni á laugardag það eina sem kemur til greina hjá SA.

Sú óvenjulega staða er komin upp í úrslitaeinvíginu í íshokkí kvenna að Skautafélag Akureyrar er lent undir í einvíginu við Fjölni eftir ósigur á heimavelli í kvöld, 1-2. Áður höfðu liðin unnið hvort sinn heimaleikinn, en í kvöld kom útisigur og Fjölnir stendur vel að vígi og getur tekið Íslandsmeistaratitilinn af SA með sigri í Egilshöllinni á laugardag. Það eina sem kemur til greina hjá SA er að vinna á laugardaginn og fá oddaleik heima á Akureyri á þriðjudagskvöld. 

Amanda Ýr Bjarnadóttir kom SA yfir með marki eftir tæpar fimm mínútur, en aðeins tveimur mínútum seinna jafnaði Sigrún Agatha Árnadóttir fyrir Fjölni. Þrátt fyrir að vera einni fleiri á ís tvisvar í tvær mínútur á skömmum tíma tókst gestunum ekki að bæta við marki. Við lok seinni refsingarinnar munaði minnstu að Silvía Rán Björgvinsdóttir næði að skora þegar hún kom beint úr refsibúrinu og varnarmenn SA komu pökknum fram, en Karitas varði frá Silvíu Rán. Jafnt eftir fyrsta leikhluta, eins og í leik nr. 2. 

Strax eftir rúma eina og hálfa mínútu í öðrum leikhluta náðu gestirnir forystu með marki Kristínar Ingadóttur sem laumaði pökknum í markið af stuttu færi. Það reyndist eina mark annars leikhlutans. Hvorugu liðinu tókst að skora í þriðja leikhlutanum og virtist sem SA-konum væru mislagðar kylfur upp við markið. Karitas Halldórsdóttir stóð að auki fyrir sínu í marki Fjölnis, var með 31 varið skot, eða tæp 97%. Tíminn leið og ekkert gekk að koma pökknum í markið. Undir lokin tók SA markvörðinn út af og bætti við útileikmanni. Ekki vildi betur en svo að pökkurinn tapaðist í sókninni, Fjölniskonur brunuðu fram og sóttu á tómt markið, en skutu framhjá. Ákafar tilraunir SA til að jafna á lokasekúndunum heppnuðust ekki og tíminn hljóp frá þeim. 

SA - Fjölnir 1-2 (1-1, 0-1, 0-0)

  • 1-0 Amanda Ýr Bjarnadóttir (04:42.
  • 1-1 Sigrún Agatha Árnadóttir (06:37). Stoðsending: Kristín Ingadóttir, Elín Darkoh.
    - - -
  • 1-2 Kristín Ingadóttir (21:37). Stoðsending: Sigrún Agatha Árnadóttir.
    - - -
    Markalaust í þriðja leikhluta.

SA
Mörk/stoðsendingar: Amanda Ýr Bjarnadóttir 1/0
Varin skot: Shawlee Gaudreault 18 (7, 4, 7) – 90%
Refsimínútur: 8.

Fjölnir
Mörk/stoðsendingar: Sigrún Agatha Árnadóttir 1/1, Kristín Ingadóttir 1/1, Elín Darkoh 0/1.
Varin skot: Karitas Halldórsdóttir 31 (10, 11, 10) – 96,88%. 
Refsimínútur: 4.

Liðin mætast í fjórða leik einvígisins í Egilshöllinni á laugardag kl. 16:45.