Fara í efni
Íþróttir

Engin langtímalán hvíla lengur á Þór

Engin langtímalán hvíla lengur á Þór

Íþróttafélagið Þór greiddi á síðasta ári upp langtímalán og skuldar nú ekkert nema tímabundnar yfirdráttarheimildir einstakra deilda. Þetta kom fram í máli Inga Björnssonar, formanns félagsins, sem endurkjörinn var á aðalfundi þess í gær.

Í ræðu sinni á fundinum kom Ingi m.a. inn á að skipulagsmál hafi verið fyrirferðamikil innan stjórnar Þórs. Lýsti hann miklum vonbrigðum með að skv. skýrslu Akureyrarbæjar sé ekki gert ráð fyrir neinni uppbyggingu á Þórssvæðinu næstu átta til 10 árin.

Afgangur af rekstri félagsins í heild á síðasta ári voru 9,5 milljónir króna. „Unnsteinn Jónsson gjaldkeri aðalstjórnar kynnti ársreikning félagsins. Unnsteinn segir að félagið hafi verið rekið með mjög ábyrgum hætti undanfarin ár vegna þeirra vinnureglna sem teknar hafa verið upp með mánaðarlegu uppgjöri og eftirliti rekstri deilda,“ segir á heimsíðu Þórs, og að félagið hafi alla burði til að halda því áfram. „Rekstur síðasta árs hafi gengið vel þrátt fyrir ástandið í heiminum og hafi rekstarafgangur samstæðunnar verið 9,5 milljónir,“ er haft eftir gjaldkeranum.

Ingi Björnsson rifjaði upp að í byrjun síðasta árs voru stofnaðar tvær nýjar deildir í félaginu, hnefaleikadeild og rafíþróttadeild, og sagði formaðurinn starf þeirra afar blómlegt. Þá kom fram á fundinum að til standi að fara af stað með verkefnið Hugarþjálfun sem snúist um að félagið „vilji taka forystu sem íþróttafélag þar sem hugað er að andlegum þætti iðkenda félagsins og starfsfólks.“

Nánar hér á heimasíðu Þórs.