Fara í efni
Íþróttir

Endurkoma Júlíusar hið eina gleðilega

Júlíus Orri Ágústsson gat loks reimað á sig keppnisskóna á ný í gærkvöldi. Ljósmynd: Skapti Hallgrím…
Júlíus Orri Ágústsson gat loks reimað á sig keppnisskóna á ný í gærkvöldi. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Júlíus Orri Ágústsson, hinn ungi og bráðefnilegi fyrirliði Þórsliðsins í körfubolta, sneri aftur á völlinn í kvöld eftir langa fjarveru vegna meiðsla. Gríðarlega ánægjuleg tíðindi, en því miður var endurkoma Júlíusar það eina gleðilega við leikinn. Þórsarar mættu Njarðvíkingum syðra og töpuðu 97:75.

Þrátt fyrir fjögur töp í röð eru Þórsarar enn í áttunda sæti, því síðasta sem gefur keppnisrétt í úrslitakeppninni, þegar tvær umferðir eru eftir.

Tímabilið hefur sannarlega verið sérstakt hjá Þórsurum. Þeir töpuðu fimm fyrstu leikjunum í deildinni, náðu sér síðan á strik en hafa þó verið brokkgengir; stundum hefur liðið verið frábært og unnið glæsilega sigra en dottið niður þess á milli.

Þórsarar voru á miklu skriði áður en öllu var skellt í lás vegna Covid; höfðu unnið fimm leiki í röð, Grindavík og ÍR á heimavelli og Stjörnuna, Hauka og KR fyrir sunnan. Eftir að keppni hófst á ný hefur hins vegar hvorki gengið ná rekið og liðið tapaði í gær fjórða leiknum í röð. Þórsarar steinlágu fyrir Tindastóli og Val, töpuðu síðan mjög slysalega með eins stigs mun fyrir Hetti á heimavelli á fimmtudaginn og með 22 stiga mun fyrir Njarðvíkingum í kvöld.

Þór á eftir að mæta nafna sínum í Þorlákshöfn, næsta föstudag, og strákarnir taka síðan á móti Haukum í lokaumferðinni í Íþróttahöllinni á Akureyri sunnudaginn. 10. maí. Sigur í öðrum leiknum gæti tryggt sæti í úrslitakeppninni en er ekki öruggt.

Smelltu hér til að sjá tölfræðina úr leiknum