Fara í efni
Íþróttir

Elfar Árni tryggði KA þrjú stig í Garðabæ

Elfar Árni Aðalsteinsson gerði eina markið í dag. Hér er hann í leiknum gegn Víkingi á föstudaginn. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Elfar Árni Aðalsteinsson var hetja KA-manna í kvöld, þegar þeir unnu torsóttan sigur á botnliði Stjörnunnar, 1:0, í Pepsi Max deild Íslandsmótsins í knattspyrnu í Garðabæ. Elfar Árni kom inn á sem varamaður á 67. mínútu og gerði sigurmarkið á 82. mínútu með hnitmiðuðu skoti úr teignum. Hann hefur glímt við meiðsli í langan tíma en markanefið er greinilega enn á sínum stað og afar mikilvægt fyrir KA-menn ef Elfar Árni getur farið að spila reglulega.

Arnar Grétarsson, þjálfari KA, gerði þrjár breytingar á byrjunarliðinu frá 1:0 tapinu fyrir Víkingi á föstudaginn; Sebastiaan Brebels, Haukur Heiðar Hauksson og Nökkvi Þeyr Þórisson komu í stað Daníels Hafsteinssonar, Bjarna Aðalsteinssonar og Steinþórs Freys Þorsteinssonar. Þetta var fyrsti leikur Brebels í byrjunarliðinu, hann meiddist á dögunum en kom inn á í leiknum gegn Víkingum. Belginn hefur lítið getað æft undanfarið en frammistaðan í kvöld var gott sýnishorn af því hvað í hinum býr.

Fyrri hálfleikurinn í kvöld fer ekki í sögubækur fyrir skemmtanagildi, bæði lið léku af nokkurri varfærni og engin hætta sem talandi er um skapaðist við mörkin.

Hallgrímur Mar Steingrímsson fékk besta færi leiksins snemma í seinni hálfleik; komst einn í gegn eftir frábæra sendingu Sebastiaans Brebels en Haraldur markvörður Stjörnunnar varð meistaralega frá honum. Stjörnumenn fengu líka fín færi og Steinþór Stubbur í KA-markinu varði nokkrum sinnum mjög vel.

Stjarnan er á botni deildarinnar með aðeins tvö stig og enn án sigurs, en frammistaða liðsins í dag var satt besta að segja ekki í samræmi við þá uppskeru í deildinni. Stjarnan hefði allt eins getað nælt í stig eða jafnvel þrjú hefðu lukkudísirnar verið með þeim eða leikmönnum ekki eins mislagðar hendur. Það er hins vegar að sjálfsögðu gríðarlega mikilvægt fyrir KA-menn að vinna jafna leiki; að kreista fram sigra þrátt fyrir að frammistaðan sé ekki eins og hún getur orðið best.

Smelltu hér til að sjá leikskýrsluna.