Fara í efni
Íþróttir

Einar Rafn spilandi aðstoðarþjálfari KA

Jón Heiðar Sigurðsson, formaður handknattleiksdeildar KA, og Einar Rafn Eiðsson eftir undirritun samningsins. Mynd: ka.is

Handknattleiksdeild KA hefur gengið frá samningi við Einar Rafn Eiðsson um að hann verði spilandi aðstoðarþjálfari meistaraflokks. Einar Rafn hefur leikið með KA-liðinu síðustu fjögur keppnistímabil og verður nú því til viðbótar Andra Snæ Stefánssyni þjálfara til aðstoðar á komandi vetri.

Að því er segir í frétt á vef KA kom Einar Rafn eins og stormsveipur inn í félagið á sínum tíma, enda mikill markaskorari. Hann hefur tvisvar orðið markakóngur efstu deildar sem leikmaður KA og jafnaði einnig félagsmet í markaskorun þegar hann skoraði 17 mörk í leik gegn Gróttu í desember 2022.

Í fréttinni lýsa KA-menn yfir ánægju með að fá Einar Rafn inn í þjálfarateymið til að vinna ásamt Andra Snæ með spennandi lið KA á komandi vetri. Kjarni liðsins verði byggður upp á öflugum KA-mönnum, Einar Rafn hafi sannað sig sem grjótharður félagsmaður og það verði spennandi að sjá hann í enn stærra hlutverki í vetur.