Fara í efni
Íþróttir

Einar Rafn semur áfram við KA – til vors 2025

Einar Rafn Eiðsson skrifaði í dag undir nýjan tveggja ára samning við handknattleiksdeild KA og er nú samningsbundinn félaginu til vors 2025. Þetta kemur fram á vef félagsins.

„Eru þetta frábærar fréttir enda Einar einn allra besti leikmaður Olísdeildarinnar og algjör lykilmaður í okkar liði,“ segir á vef KA. Hann gekk til liðs við félagið sumarið 2021 og er því að ljúka öðru keppnistímabilinu með KA. 

  • Fjórar umferðir eru eftir af Olísdeildinni í ár og er Einar Rafn markahæstur - hefur gert 127 mörk.
  • KA hefur átt markakóng deildarinnar undanfarin tvö ár; Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði mest allra síðasta vetur og Árni Bragi Eyjólfsson  keppnistímabilið þar á undan.
  • Þegar Einar Rafn lék með FH varð hann markakóngur efstu deildar tímabilið 2015-2016 og valinn sóknarmaður ársins tímabilið 2017-2018. 
  • Vert er að rifja upp að Einar Rafn jafnaði félagsmet KA þegar hann gerði 17 mörk í leik KA og Gróttu í vetur. Arnór Atlason átti metið; gerði 17 mörk gegn Þór tímabilið 2003-2004.

Landsliðskonan Unnur Ómarsdóttir, eiginkona Einars Rafns, leikur sem kunnugt er með KA/Þór.