Fara í efni
Íþróttir

Einar og Harpa nældu í stórsvigsgullið

Íslandsmeistararnir í stórsvigi, Harpa María Friðgeirsdóttir og Einar Kristinn Kristgeirsson.
Íslandsmeistararnir í stórsvigi, Harpa María Friðgeirsdóttir og Einar Kristinn Kristgeirsson.

Einar Kristinn Kristgeirsson, Skíðafélagi Akureyrar, varð Íslandsmeistari í stórsvigi í dag þegar alpagreinakeppni Skíðamóts Íslands hófst í Hlíðarfjalli. Harpa María Friðgeirsdóttir frá Reykjavík varð Íslandsmeistari í kvennaflokki. Keppendur voru 24, 12 af hvoru kyni.

Harpa María sigraði eftir harða baráttu við Sigríði Dröfn Auðunsdóttir, sem er líka frá Reykjavík. Sigríður Dröfn var fyrst eftir fyrri ferðina með einungis 1/100 úr sekúndu í forskot. Harpa María náði hinsvegar besta tímanum í seinni ferðinni og endaði aðeins 7/100 úr sekúndu á undan Sigríði Dröfn. Var þetta fyrsti Íslandsmeistaratitill Hörpu Maríu í fullorðinsflokki en hún tekur við titlinum af systur sinni, Hólmfríði Dóru Friðgeirsdóttur, sem var Íslandsmeistari 2018 og 2019 í stórsvigi! Skíðamót Íslands fór ekki fram á síðasta ári vegna Covid. Signý Sveinbjörnsdóttir, einnig frá Reykjavík, varð í 3.sæti í dag.

Úrslitin í karlaflokki verða að teljast nokkuð óvænt. Einar Kristinn Kristgeirsson er margfaldur Íslandsmeistari og Ólympíufari en hætti að æfa fyrir nokkrum árum. Einar Kristinn hefur tekið þátt í mótum af og til en ekki sigrað á Íslandsmóti síðan 2016. Hann varð einmitt Íslandsmeistari í stórsvigi fjögur ár í röð, frá 2013 til 2016. Einar Kristinn var með bestan tíma í báðum ferðum í dag og var 78/100 úr sekúndu á undan Gauta Guðmundssyni sem endaði í 2.sæti. Sturla Snær Snorrason endaði í 3.sæti.

Konur
1. Harpa María Friðgeirsdóttir - SKRR
2. Sigríður Dröfn Auðunsdóttir - SKRR
3. Signý Sveinbjörnsdóttir - SKRR

Hér sjá öll úrslit í kvennaflokki

Karlar
1. Einar Kristinn Kristgeirsson - SKA
2. Gauti Guðmundsson - SKRR
3. Sturla Snær Snorrason - SKRR

Hér má sjá öll úrslit í karlaflokki

Þrír efstu í karlaflokki, frá vinstri: Gauti Guðmundsson, Einar Kristinn Kristgeirsson og Sturla Snær Snorrason. 

Þrjár efstu í stórsviginu, frá vinstri: Sigríður Dröfn Auðunsdóttir, Harpa María Friðgeirsdóttir og Signý Sveinbjörnsdóttir.