Fara í efni
Íþróttir

Eigum möguleika á að vinna alla titlana

Paula del Olmo Gomez og Gígja Guðnadóttir, fyrirliði KA.

Kvennalið KA er í efsta sæti úrvalsdeildar Íslandsmótsins í blaki þegar haldið er í jólafrí. Liðið hefur unnið átta leiki og aðeins tapað einum. Íslandsmeistarar Aftureldingar eru í öðru sæti en eiga einn leik til góða.

Eina tap KA-stelpnanna var á heimavelli gegn Aftureldingu, 3:0, en KA-liðið gerði sér hins vegar lítið fyrir og vann Íslandsmeistarana 3:0 í Mosfellsbænum. „Það voru hörkuleikir og 3:0 úrslitin endurspegla í raun ekki leikina, þegar við unnum í Mosfellsbænum voru allar hrinurnar mjög spennandi og sú fyrsta fór til dæmis í upphækkun og endaði 31:29!“ sagði Gígja Guðnadóttir, fyrirliði KA-liðsins, við Akureyri.net. Sé allt hefðbundið dugar liði að gera 25 stig til að vinna hrinu.

Mjög jafnt og spennandi

„Þetta hefur verið mjög flott hjá okkur í vetur, toppbaráttan er jöfn og þetta tímabil verður mjög spennandi,“ sagði Gígja. Reiknað var með að Afturelding og KA yrðu bestu liðin en Gígja segir lið Þróttar Fjarðarbyggðar hafa komið mjög á óvart.

KA-liðið var sterkt í fyrravetur en tapaði í undanúrslitum Íslandsmótsins fyrir Aftureldingu. „Helena Kristín Gunnarsdóttir sleit krossband í fyrravetur og var því ekki með. Hún er reyndar heldur ekki með í vetur því hún er ólétt en Tea Andric, króatískur leikmaður sem kom í staðinn, hefur verið mjög sterk. Það sem einkennir liðið í vetur er mikil breidd; ungu stelpurnar, Jóna Margrét Arnarsdóttir, Lovísa Rut Aðalsteinsdóttir og Heiðbrá Björgvinsdóttir hafa til dæmis allar spilað mikið og þetta lítur mjög vel út,“ segir Gígja.

Hún tekur Jónu Margréti sem dæmi: „Hún er fædd 2003 og er uppspilari, sem er mjög mikilvæg staða. Maður er eiginlega hissa hvað þessar ungu stelpur bæta sig með hverjum leik. Góð frammistaða kemur ekki á óvart, en það gleymist stundum hve ungar þær eru.“

Jóna Margrét og Heiðbrá eru fæddar 2003 og Lovísa Rut 2002.

Góðir útlendingar

Erlendu leikmennirnir hjá KA eru afar öflugir; Paula Del Olmo Gomez, var frábær í fyrravetur og hefur haldið sínu striki, Nera Mateljan er öflugur leikmaður sem gekk til liðs við KA þegar hún flutti í bæinn – hún kom ekki gagngert til að spila blak – og Tea Andric, sem kom til KA í haust hefur leikið sérstaklega vel.

Gígja er bjartsýn á framhaldið. „Ég mundi segja að við ættum mikla möguleika á að vinna alla titlana sem í boði eru,“ segir hún. Í boði er titill fyrir sigur í deildinni, annar fyrir sigur í bikarkeppninni og að sjálfsögðu Íslandsmeistaratitilinn. „Ef okkur gengur jafn vel áfram og vinnum alla leiki þangað til Afturelding kemur í KA-heimilið í mars þá verður það úrslitaleikur í deildinni.“