Fara í efni
Íþróttir

Deildarmeistarar SA í íshokki mæta SR

SA mætir SR í kvöld kl. 18:30. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Kvennalið Skautafélags Akureyrar í íshokkí tekur á móti liði Skautafélags Reykjavíkur Hertz-deild kvenna í Skautahöllinni á Akureyri í kvöld. Leikurinn hefst kl. 18:30.

SA-konur hafa nú þegar tryggt sér deildarmeistaratitilinn og oddaleiksréttinn í úrslitakeppninni þó liðið eigi enn eftir að spila fjóra leiki í deildinni. Þrír þessara leikja eru gegn SR, heimaleikurinn í kvöld og tveir útileikir helgina 9.-10. febrúar, og einn gegn Fjölni, heimaleikur 3. febrúar.

SA-konur eru langefstar í deildinni, hafa náð sér í 33 stig. Fjölnir er í 2. sæti með 15 stig og SR vermir botninn með þrjú stig, en þær unnu sinn fyrsta leik á tímabilinu þegar þær lögðu lið Fjölnis í Laugardalnum 6-3 í vikunni sem leið. Miðað við þau stig sem enn eru í pottinum á SR enn möguleika á að ná 2. sæti deildarinnar og komast í úrslitarimmuna gegn SA, en þá þarf ansi margt að ganga upp hjá þeim og líkurnar frekar með Fjölni. 

Úrslitakeppni kvenna í íshokkí hefst fyrstu helgina í mars, með heimaleik hjá SA gegn öðru þessara liða.