Fara í efni
Íþróttir

Deildarmeistarar SA buðu upp á markaveislu

Deildarmeistarar SA í kvennaflokki með bikarinn sem afhentur var í leikhléi viðureignar karlaliða SA Víkinga og Fjölnis í dag. Í kvöld unnu SA-stelpurnar svo Fjölni mjög örugglega. Ljósmynd: Þórir Tryggvason

Seinni leikur dagsins í Skautahöllinni á Akureyri var viðureign kvennaliða SA og Fjölnis í Hertz-deildinni. Fyrir leikinn hafði lið SA tryggt sér deildarmeistaratitilinn og fengu stelpurnar bikarinn afhentan í öðru leikhléinu í leik karlaliða sömu félaga fyrr í dag.

Eftir rólegan fyrsta leikhluta buðu heimakonur upp á markaveislu og öruggan sigur á liði Fjölnis. Sólrún Assa Arnardóttir, Silvía Rán Björgvinsdóttir og Ragnhildur Kjartansdóttir skoruðu tvö mörk hver. Sólrún Assa átti að auki tvær stoðsendingar.

Heimakonur í SA voru sprækari og skoruðu eina mark fyrsta leikhlutans þegar liðin höfðu leikið í um stundarfjórðung. Annar leikhluti var heldur fjörugri en sá fyrsti. Annað mark SA kom snemma í leikhlutanum, en á innan við fimm mínútum í síðari hluta annars leikhluta kom svo markaregn, samtals fjögur mörk á innan við fimm mínútum. SA komst í 3-0, gestirnir minnkuðu muninn, en SA-konur svöruðu með tveimur mörkum.

Markaveislan hélt síðan áfram um miðjan síðasta þriðjunginn þegar tvö mörk bættust við á innan við tveimur mínútum og staðan orðin 7-1. Berglind Leifsdóttir minnkaði muninn fyrir gestina þegar innan við fimm mínútur voru eftir af leiknum. Það reyndist síðasta markið í þessari átta marka veislu.

SA - Fjölnir 7-2 (1-0, 4-1, 2-1)

 • 1-0 Ragnhildur Kjartansdóttir (14:42). Stoðsending: Amanda Ýr Bjarnadóttir, Sólrún Assa Arnardóttir.
  - - -
 • 2-0 Sólrún Assa Arnardóttir (22:41). Stoðsending: Silvía Rán Björgvinsdóttir, Amanda Ýr Bjarnadóttir.
 • 3-0 Sólrún Assa Arnardóttir (29:46). Stoðsending: Sveindís Marý Sveinsdóttir.
 • 3-1 Sigrún Agatha Árnadóttir (31:54). 
 • 4-1 Silvía Rán Björgvinsdóttir (33:43). Stoðsending: Sólrún Assa Arnardóttir.
 • 5-1 Ragnhildur Kjartansdóttir (34:20). 
  - - -
 • 6-1 Anna Sonja Ágústsdóttir (47:46). Stoðsending: Heiðrún Helga Rúnarsdóttir.
 • 7-1 Silvía Rán Björgvinsdóttir (48:32). 
 • 7-2 Berglind Leifsdóttir (54:52).

Mörk og stoðsendingar SA: Sólrún Assa Arnardóttir 2/2, Silvía Rán Björgvinsdóttir 2/1, Ragnhildur Kjartansdóttir 2/0, Anna Sonja Ágústsdóttir 1/0, Amanda Ýr Bjarnadóttir 0/2, Sveindís Marý Sveinsdóttir 0/1, Heiðrún Helga Rúnarsdóttir 0/1.

Yfirburðir SA voru talsverðir eins og markatalan sýnir glögglega og skot á mark segja svipaða sögu. SA átti 38 skot á markið á móti 11 skotum gestanna. Aníta Sævarsdóttir í marki SA varði níu skot af þessum 11, eða 82%, en Karítas Halldórsdóttir í marki Fjölnis varði 31 skot, eða tæp 82%. SA konur fengu aðeins eina brottvísun, eða tvær mínútur, en Fjölniskonur sátu samtals sex mínútur í refsiboxinu.