Fara í efni
Íþróttir

Daníel í landsliðið, Ívar og Þorri til vara

Daníel Hafsteinsson með boltann í leik gegn Breiðabliki í sumar. Damir Muminovic, til vinstri, er einnig í landsliðshópnum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Daníel Hafsteinsson, sem hefur leikið mjög vel á miðjunni hjá KA í sumar, er í landsliðshópnum í knattspyrnu sem tilkynntur var í dag fyrir vináttuleik gegn Sádi-Arabíu 6. nóvember. Þjóðirnar mætast þá í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Landsliðsfyrirliðinn, Aron Einar Gunnarsson, er í hópnum að þessu sinni þar sem félagsliðin í Katar verða komin í frí vegna heimsmeistaramótsins sem hefst þar í landi 20. nóvember.

Fimm leikmenn eru valdir til vara og verða því í startholtunum, þar af tveir KA-menn, Ívar Örn Árnason og Þorri Mar Þórisson.

Stefnt er að því að landsliðið spili annan leik í ferðinni en ekki hefur verið staðfest hvort af því verður. Ekki er um alþjóðlega landsleikjadaga að ræða – FIFA-glugginn svokallaði er ekki opinn – og því eru margir úr íslenskum liðum valdir. Flestir leikmenn sem spila erlendis sinna  hefðbundnum skyldustörfum með félögum sínum á sama tíma.

Síðar í nóvember fer fram mót sem kallast Baltic Cup, Eystrasaltskeppnin, þar sem Eistland, Lettland og Litháen leika auk Íslands. Fyrst mætir Ísland liði Litháens í undanúrslitum og svo annarri hvorri hinni þjóðinni í úrslitaleik eða leik um 3. sæti. Hópurinn fyrir það verkefni verður tilkynntur síðar.

„Leikirnir í fyrra verkefninu eru ekki innan FIFA-glugga og þess vegna veljum við 23 manna hóp, með 5 leikmenn til vara þar sem það er óvissa með þátttöku nokkurra leikmanna sem gætu verið að leika með sínum félagsliðum í umspilsleikjum,“ segir Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari á vef KSÍ. „Þetta á eftir að skýrast. Sú staða gæti komið upp að einhverjir þeirra leikmanna sem eru á varalistanum yrðu kallaðir inn í 23 manna hópinn og við erum að tilkynna hópinn svona snemma að þessu sinni til að leikmenn sem eru að ljúka keppnistímabilum með sínum félagsliðum geti gert viðeigandi ráðstafanir. Vonandi náum við að klára að staðfesta annan leik fyrr þennan hóp og það skýrist væntanlega strax eftir helgi.” 

Smellið hér til að sjá allan landsliðshópinn á vef KSÍ.