Fara í efni
Íþróttir

Dagur Árni, Logi og Óskar framlengja við KA

Dagur Árni Heimisson lék býsna stórt hlutverk í KA-liðinu í vetur þrátt fyrir að vera aðeins 16 ára. Hann verður ekki 17 ára fyrr en í nóvember. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þrír ungir og bráðefnilegir handboltamenn í KA hafa endurnýjað samninga sína við félagið, allir til tveggja ára. Þetta eru Dagur Árni Heimisson, Logi Gautason og Óskar Þórarinsson, sem allir eru fastamenn í yngri landsliðum. Þeir eru nú samningsbundnir KA til vors 2025. 

Dagur Árni er enn aðeins 16 ára, verður ekki 17 fyrr en í nóvember, en lék stórt hlutverk í meistaraflokki KA á nýliðnu keppnistímabili og þykir einn allra efnilegasti leikmaður landsins. Hann var burðarás í liði KA-stráka sem fæddir eru 2006 en þeir töpuðu ekki leik í 4. aldursflokki, þar sem unnu alla titla sem í boði voru hér á landi, og sigruðu síðan á Partille Cup í Svíþjóð, sem gjarnan er talað um sem ópinbert Norðurlandamót í handbolta.

Logi Gautason er á 18. ári og spilar í vinstra horni. Hann lék lykilhlutverk í ungmennaliði KA sem endaði í 5. sæti Grill66 deildarinnar í vetur, næst efstu deildar Íslandsmótsins.

Óskar Þórarinsson markvörður er 17 ára. Hann var í lykilhlutverki eins og Aron Dagur í 2006-liði KA sem áður var nefnt.

Logi Gautason og Haddur Júlíus Stefánsson, formaður handknattleiksdeildar KA.

Óskar Þórarinsson og Haddur Júlíus Stefánsson, formaður handknattleiksdeildar KA.