Fara í efni
Íþróttir

Dagur á leið til ØIF Arendal í Noregi

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Dagur Gautason, hornamaðurinn snjalli í handboltaliði KA, er á leið til norska liðsins ØIF Arendal skv. heimildum Akureyri.net og semur til tveggja ára.

Liðið er frá samnefndum bæ syðst í Noregi. Það hefur verið eitt besta lið landsins undanfarin ár og lék til úrslita um norska meistaratitilinn í fyrravetur. Liðið missti hins vegar naumlega af sæti í átta liða úrslitakeppni um meistaratitilinn í vetur.

Annar Akureyringur er þegar á mála hjá ØIF Arendal, Þórsarinn Hafþór Vignisson, örvhenta skyttan sem einnig hefur leikið með Stjörnunni og Empor Rostock í Þýskalandi.

Dagur, sem er 23 ára, lék mjög vel með KA í vetur. Hann gerði fimm mörk að meðaltali í leik í Olísdeildinni og var með 82,2% skotnýtingu skv. HBStatz tölfræðisíðunni. Þá var hann í liði ársins sem HBStatz setti saman úr allri tölfræði sem tekin var saman úr leikjum deildarinnar í vetur.

Dagur er uppalinn í KA og lék fyrst með meistaraflokki veturinn 2017 til 2018. Hann lék með liðinu þar til vorið 2020, var næstu tvo vetur með Stjörnunni á meðan hann var í námi í Reykjavík, en sneri aftur á heimaslóðir síðasta haust.