Brynjar Ingi seldur til Greuther Fürth

Knattspyrnumaðurinn Brynjar Ingi Bjarnason er á leið til Greuther Fürth sem leikur í 2. deild í Þýskalandi. KA-maðurinn hefur leikið með HamKam í Noregi undanfarin misseri en norska liðið selur hann til þess þýska að því er TV2 í Noregi segir frá í morgun og Akureyri.net hefur fengið staðfest að það er sannleikanum samkvæmt.
TV2 segir að samningur Brynjars Inga renni út eftir þetta keppnistímabil, hann hafi ekki viljað semja áfram við HamKam og því sé félagið tilbúið að selja leikmanninn.
Brynjar Ingi, sem er 25 ára, sló í gegn með KA sumarið 2021 og var seldur til ítalska félagsins Lecce. Þaðan fór hann fljótlega til Vålerenga í Noregi og loks til HamKam. Hann á að baki 75 leiki í efstu deild í Noregi, 61 með HamKam og 14 með Vålerenga.
Keppni í þýsku 2. deildinni hefst í byrjun ágúst.