Fara í efni
Íþróttir

Bræðurnir framlengja við KA til hausts 2023

Hrannar Björn, til vinstri, og Hallgrímur Mar Steingrímssynir. Lykilmenn í KA-liðinu síðustu ár. Ljó…
Hrannar Björn, til vinstri, og Hallgrímur Mar Steingrímssynir. Lykilmenn í KA-liðinu síðustu ár. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Hallgrímur Mar og Hrannar Björn Steingrímssynir hafa báðir framlengt samning við knattspyrnudeild KA og eru nú samningsbundnir út sumarið 2023. Frá þessu var greint á heimasíðu KA í dag. „Báðir eru þeir algjörir lykilmenn í liði KA sem er í toppbaráttu efstu deildar í sumar auk þess að vera komið áfram í Mjólkurbikarnum,“ segir á heimasíðunni.

Bræðurnir eru uppaldir í Völsungi á Húsavík en gengu báðir ungir að árum til liðs við KA, Hallgrímur aðeins 18 ára og Hrannar 21 árs.

Á heimasíðu KA segir um þá bræður:

„Hallgrímur Mar sem verður 31 árs á árinu er leikjahæsti leikmaður í sögu KA en hann hefur nú leikið 238 leiki fyrir félagið í deild og bikar auk þess sem hann er markahæsti leikmaður KA í efstu deild með 31 mark. Alls hefur hann skorað 71 mark fyrir félagið og er aðeins tveimur mörkum frá Hreini Hringssyni sem er markahæstur með 73 mörk.

Hrannar Björn sem er 29 ára gamall hefur leikið 156 leiki fyrir KA í deild og bikar en Hrannar sem leikur sem bakvörður hefur gert tvö mörk í leikjunum og eru þau bæði af dýrari gerðinni.“