Fara í efni
Íþróttir

Bogfimifeðginin kepptu á HM

Lið Íslands og Ítalíu eftir útsláttarviðureignina í 24ra liða úrslitum með trissuboga. Anna María Alfreðsdóttir er þriðja frá vinstri. Mynd: Archery.is.

Feðginin Anna María Alfreðsdóttir og Alfreð Birigisson úr Íþróttafélaginu Akri urðu í 39. sæti í blandaðri liðakeppni í bogfimi utandyra á Heimsmeistaramótinu sem fram fór í Berlín 31. júlí til 6. ágúst. Í hverju liði er ein kona og einn karl. Í einstaklingskeppninni skoraði Alfreð 650 stig og endaði í 119. sæti. Af 171 aðildarþjóð Alþjóða bogfimisambandsins sendu 82 þjóðir keppnislið á mótið.


Anna María Alfreðsdóttir spennir bogann á HM. Mynd: Archery.is.

Bestum árangri íslensku liðanna á mótinu náði kvennaliðið í keppni með trissuboga. Anna María var ein af þremur í íslenska liðinu og komst liðið áfram í 24ra liða úrslit, tapaði þar á móti Ítalíu og endaði að lokum í 17. sætinu. Liðið er í 18. sæti á heimslistanum og 7. sæti á Evrópulistanum. 

Í einstaklingskeppninni komst Anna María áfram eftir undankeppnina, en tapaði á móti Oliviu Dean frá Bandaríkjunum í fyrsta útslætti og endaði í 80. sæti. Alfreð endaði í 116. sæti í keppni með trissuboga.


Alfreð Birgisson spennir bogann á HM. Mynd: Archery.is.