Fara í efni
Íþróttir

Blakleikir á heimavelli, íshokkí og fótbolti úti

Fjögur af íþróttaliðum bæjarins verða á ferðinni í dag, karla- og kvennalið KA í blaki leika bæði á heimavelli, kvennalið Þórs/KA í knattspyrnu spilar í Kópavogi og ungmennalið SA í íshokkí í Reykjavík.

Undanfarið hefur syrt í álinn hjá liði Þórs/KA í Bestu deild kvenna í knattspyrnu. Liðið er komið í neðri hlutann, það er lokaumferðin fyrir tvískiptingu deildarinnar sem fram fer í dag. Þór/KA þarf ekki aðeins á sigri að halda til að eiga möguleika á að komast upp fyrir strik heldur þarf einnig að treysta á hagstæð úrslit í öðrum leik.

  • Besta deild kvenna í knattspyrnu, 18. umferð
    Kópavogsvöllur kl. 14
    Breiðablik - Þór/KA

- - -

Íslandsmótið í blaki hefst í dag. Um liðna helgi fóru fram leikir um titlana meistarar meistaranna. Karlalið KA vann tvöfalt í vor, varð bæði Íslands- og bikarmeistari. Liðin sem mættust í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins, KA og Þróttur, mættust því í meistarakeppninni. Þar bætti KA enn einum bikarnum í safnið, vann viðureignina 3-2.

  • Unbroken-deild karla í blaki
    KA-heimilið kl. 15
    KA - Hamar

- - -

Kvennalið KA í blaki hélt áfram sigurgöngu sinni þegar liðið mætti Völsungi í keppni um titilinn meistarar meistaranna um liðna helgi. Þar sem KA varð bæði Íslands- og bikarmeistari mættust liðin sem kepptu til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn í vor. KA vann örugglega, 3-0, og bætti enn einum bikarnum í safnið. Nú er komið að fyrsta leik liðsins á Íslandsmótinu. 

  • Unbroken-deild kvenna í blaki
    KA-heimilið kl. 17:30
    KA - Þróttur R./Blakfélag Hafnarfjarðar

- - -

Ungmennalið SA, Jötnar, sækir Skautafélag Reykjavíkur heim í Laugardalinn í forkeppni Toppdeildar karla í íshokkí. Fyrstu vikur Íslandsmótsins, Toppdeildarinnar, fer fram forkeppni þar sem þrjú meistaraflokkslið, SA, SR og Fjölnir, og tvö ungmennalið, Jötnar frá SA og Húnar frá Fjölni, mætast í einfaldri umferð.

  • Toppdeild karla í íshokkí, forkeppni
    Skautahöllin í Laugardal kl. 17:45
    SR - Jötnar

Jötnar hafa nú þegar unnið einn leik, en liðið mætti Húnum í Egilshöllinni síðastliðið föstudagsvöld og vann 11-2.