Blak: KA-konur lögðu Völsunga á Húsavík

Kvennalið KA heimsótti Völsung á Húsavík í vikunni og fór með 3:1 sigur af hólmi í viðureign liðanna í Unbrokendeildinni í blaki. Lið KA hefur nú unnið þrjá fyrstu leiki sína í deildinni og liðið verður að teljast líklegt til að verja titla sína frá síðustu leiktíð.
Hrinurnar í leiknum voru flestar mjög jafnar. KA vann þá fyrstu 25:17 en Völsungar jöfnuðu með 25:22 sigri í þeirri næstu. KA náði forystunni á nýjan leik með 25:21 sigri í þriðju hrinu og tryggði sér síðan sigurinn með 25:19 sigri í fjórðu hrinu.
Lið HK verður trúlega erfiðasti andstæðingur KA í vetur en stúlkurnar úr Kópavogi hafa unnið fyrstu fimm leiki sína í deildinni, án þess að tapa hrinu. Þessi lið munu hins vegar ekki mætast í deildinni fyrr en um miðjan desember. Næsti leikur KA verður gegn Þrótti Neskaupstað þann 15. október.