Fara í efni
Íþróttir

Íþróttafólki gefst kostur á hugarfarsprófi

Sigurður Ragnar Eyjólfsson, fyrrverandi þjálfari kvennalandsliða Íslands og Kína í fótbolta.

Íþróttafólki á Akureyri gefst í næstu viku kostur á því að að taka hugarfarspróf á vegum Knattspyrnuakademíu Norðurlands og Sigurðar Ragnars Eyjólfssonar, fyrrverandi þjálfara kvennalandsliða Íslands og Kína í fótbolta. Prófið stendur öllum 12 ára og eldri til boða, óháð því hvaða íþróttgrein viðkomandi stundar.

Í prófinu er mæld hugræn færni hvers og eins í íþróttum, eins og það er kallað í tilkynningu, „sem mun hjálpa þeim að sjá styrkleika þeirra og veikleika hugarfarslega.“

Prófið er í formi spurningalistakönnunar; þátttakandinn svarar 48 spurningum, þar sem mældir eru 12 flokkar hugarfars. Þeir eru: markmið, sjálfstraust, skuldbinding við íþróttina, streituviðbrögð, óttastjórnun, slökun, virkjun, einbeiting, athyglisstjórnun, skynmyndanotkun, hugræn þjálfun og keppnisáætlun. Spurningalistinn er keyrður heim til þeirra sem taka þátt, fimmtudaginn 10. desember og svörunum á að skila daginn eftir, föstudaginn 11. desember, í Hamarstíg 36, á milli klukkan 17 og 20. Þátttaka kostar 4.000 krónur og er reiknað með að prófið taki 10 til 20 mínútur.

Sigurður Ragnar er íþróttafræðingur og M.Sc. í íþróttasálfræði. Hann fer yfir niðurstöður prófsins, gefur einkunn fyrir hvern þátt og niðurstöðurnar eru keyrðar heim til hvers og eins þátttakanda mánudaginn 14. desember. Vert er geta þess að leikmenn A-landsliða Íslands í knattspyrnu, karla og kvenna, eru meðal þeirra sem hafa þreytt prófið.

Skrá skal þátttöku í pósti, á netfangið thorolfur@akmennt.is og þurfa eftirfarandi upplýsingar að koma fram:

  • Nafn og kennitala þess sem vill þreyta prófið, ásamt núverandi félagi og íþróttagrein.
  • Nafn, heimilisfang, kennitala og símanúmer greiðanda.