Fara í efni
Íþróttir

Bjarnþór meistari, Finnur varð þriðji

Bjarnþór Elíasson á bílnum Olsen Olsen í keppninni á Akureyri í dag. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Austfirðingurinn Bjarnþór Elíasson varð Íslandsmeistari í torfæru í dag, laugardag, þegar hann lenti í öðru sæti í Motul torfærunni á svæði Bílaklúbbs Akureyrar. Bjarnþór fékk 17 stig fyrir annað sæti og alls 77. Þetta var síðasta keppni ársins til Íslandsmeistaratitils.

Sigurvegari keppninnar í dag varð Sunnlendingurinn Atli Jamil Ásgeirsson, fékk fyrir það 20 stig og komst upp í annað sæti stigakeppninnar um Íslandsmeistaratitilinn. Heimamaðurinn Finnur Aðalbjörnsson, sem var í öðru sæti fyrir Motul torfæruna, varð sjöundi í keppni dagsins og fékk fyrir það sex stig og endaði þriðji í keppninni um Íslandsmeistaratignina með samtals 61 stig.

Meira síðar

„Stundum þarf smá heppni í keppni,“ segir í auglýsingu Happdrættis Háskólans á Raptor, bíl Atla Jamil Ásgeirssonar. Það var engin heppni að hann ók afar vel í dag – flaug stundum eins og þarna – og sigraði í Motul-torfærunni á Akureyri.

Finnur Aðalbjörnsson í síðustu brautinni. Hann gerði vitaskuld allt hvað hann gat til að komast alla leið en varð að játa sig sigraðan í þetta skipti eins og fleiri.

Atli Jamil Ásgeirsson sigri hrósandi eftir glæsilegan akstur í síðustu brautinni. Þá var orðið ljóst að hann sigraði í keppni dagsins, Motul torfærunni.

Bjarnþór Elíasson sem varð Íslandsmeistari í torfæru í ár.

Bjarnþór Elíasson í Motul torfærunni í dag.

Finnur Aðalbjörnsson í síðustu brautinni, þar sem keppendur byrjuðu á því að bruna yfir stóra tjörn.