Bikarinn: Vestri - Þór og Þór/KA - FH

Þór/KA mætir FH á heimavelli í átta liða úrslitum bikarkeppni kvenna í knattspyrnu og karlalið Þórs fer til Ísafjarðar og mætir Vestra. Dregið var í höfuðstöðvum Knattspyrnusambandsins í hádeginu.
Leikirnir í kvennaflokki verða 11. og 12. júní en bikarleikir karla 18. og 19. júní. Ekki er ljóst hvenær Þór og Þór/KA leika en ætti að liggja fyrir seinna í dag.
Drátturinn í kvennaflokki er sem hér segir:
- Valur - Þróttur
- Þór/KA - FH
- Tindastóll - ÍBV
- Breiðablik - HK
Þór/KA þurfti aðeins einn sigur til að komast í átta liða úrslitin, burstaði KR 6:0 í 16 liða úrslitum í Boganum 11. maí.
Þór/KA og FH mættust í Bestu deildinni í Boganum 3. maí og þá sigruðu gestirnir 3:0. Stelpurnar okkar fá því heldur betur tækifæri til að hefna fyrir það slæma tap.
FH er í efst sæti Bestu deildarinnar með 13 stig að loknum fimm leikjum ásamt Breiðabliki og Þrótti. Þór/KA er með níu stig.
Erfiður útileikur hjá Þórsurum
Þórsarar ráðast ekki á garðinn þar sem hann er lægstur; Vestri er á toppi Bestu deildar Íslandsmótsins ásamt Víkingi og Breiðabliki með 13 stig að loknum sex leikjum; hefur unnið fjóra leiki, gert eitt jafntefli og tapað einum. Þór er ásamt fjórum öðrum liðum með fjögur stig á toppi Lengudeildarinnar, næst efstu deildar Íslandsmótsins.
Átta liða úrslit í karlaflokki:
- Afturelding - Fram
- ÍBV - Valur
- Stjarnan - Keflavík
- Vestri - Þór
Þór vann Magna 7:0 í 2. umferð bikarkeppninnar í vor í Boganum, í 32 liða úrslitum sigruðu Þórsarar lið ÍR 3:1, einnig í Boganum, og í 16-liða úrslitunum fögnuðu Þórsarar 4:1 sigri gegn Selfyssingum fyrir sunnan.