Fara í efni
Íþróttir

Von um Evrópusæti lifir fyrir lokaleikinn

KA-maðurinn Haukur Heiðar Hauksson og Pálmi Rafn Pálmason, leikmaður KR, berjast um boltann á Dalvík…
KA-maðurinn Haukur Heiðar Hauksson og Pálmi Rafn Pálmason, leikmaður KR, berjast um boltann á Dalvík fyrr í sumar. Til hægri er Stefán Árni Geirsson. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Íslandsmeistarar í knattspyrnu karla verða krýndir síðdegis í dag og á sama tíma kemur í ljós hvort KA eða KR endar í þriðja sæti Íslandsmótsins – sæti sem hugsanlega gefur rétt til þátttöku í Evrópukeppni næsta sumar.

Þetta eru leikir dagsins. Flautað verður til leiks klukkan 14.00:

  • KA - FH
  • Stjarnan - KR
  • Breiðablik - HK
  • Víkingur - Fjölnir
  • Fylkir - Valur
  • Keflavík - ÍA

Nái KA að sigra FH í dag endar liðið í þriðja sæti, sem yrði besti árangur félagsins frá því það varð Íslandsmeistari árið 1989. Besti árangur KA síðan er fjórða sæti árið 2002.

Víkingur eða Breiðablik verður Íslandsmeistari. Keppnin um titilinn er æsispennandi en ekki síður fallbaráttan, og barátta KA og KR um mögulegt Evrópusæti. Ekki kemur í ljós fyrr en eftir að bikarkeppninni lýkur í október, hvort liðið í þriðja sæti kemst í Evrópukeppni. Til þess verður Víkingur að vinna bikarkeppnina.

Hverjir eru möguleikarnir?

  • Ef KA og FH gera jafntefli nær KR þriðja sætinu með því að vinna Stjörnuna.
  • Ef KA tapar fyrir FH nær KR þriðja sæti með sigri, og einnig með jafntefli ef KA tapar með tveimur mörkum. Þá kemst KR upp fyrir KA með fleiri skoruðum mörkum.
  • Ef KA og KR enda jöfn að stigum og með sömu markatölu verður KA fyrir ofan vegna innbyrðis úrslita liðanna; KA vann leikinn í Reykjavík 3:1 og KR vann síðan leikinn á Dalvík 2:1.
  • Valur á reyndar fræðilega möguleika á þriðja sætinu, ef KA tapar og KR vinnur ekki en þarf þá að vinna Fylki með allt að tíu marka mun.

Fyrri leik KA og FH í sumar lauk með jafntefli, 1:1, í Kaplakrika í lok júlí. Steven Lennon gerði mark FH snemma leiks en Jonathan Hendickx jafnaði fyrir KA þegar tæpt korter var eftir.

Stelpurnar okkar á ferðinni í dag

Akureyrskir íþróttaáhugamenn geta líka skellt sér á handboltaleik í dag, því Íslandsmeistarar kvenna, KA/Þór, taka á móti Stjörnunni í KA-heimilinu klukkan 16.30. Þetta er önnur umferð Olís-deildarinnar. KA/Þór hóf keppni með því að vinna ÍBA á heimavelli um síðustu helgi.