Fara í efni
Íþróttir

Besti árangur Íslands í liðakeppni HM í keilu

Hinrik Gunnarsson, Ísak Birkir Sævarsson og Jóhann Ársæll Atlason halda á Mikeal Aroni Vilhelmssyni.

Íslenska drengjalandsliðið varð í 12. sæti af 39 þjóðum á heimsmeistaramóti 21 árs og yngri í keilu. Einn strákanna í liðinu er Mikael Aron Vilhelmsson, sonur Akureyringsins Vilhelms Einarssonar, rekstrarstjóra MiniGarðsins í Reykjavík. Villi segir soninn „að sjálfsögðu“ Akureyring þótt hann hafi ekki búið hér fyrir norðan, tengslin séu það mikil og Mikael Aron dveljist mikið hjá ömmu sinni á Akureyri. Mikael, sem er aðeins 15 ára og mikið efni, keppir fyrir Keilufélag Reykjavíkur. Hinir í liðinu eru 18, 19 og 20 ára.

Keppt er í fjórum greinum á HM; einstaklingskeppni, tvímenningi, hefðbundinni liðakeppni og keppni blandaðra liða. Einstaklingskeppnin er spiluð á hefðbundinn hátt en hinar þrjár greinarnar fylgja svokölluðu Baker fyrirkomulagi þar sem leikmenn kasta hver á eftir öðrum í stað þess að klára sinn leik

Mótið fer fram í Helsingborg í Svíþjóð og sendu Íslendingar tvö lið til keppni, kvenna- og karlalið ásamt þjálfurum, þeim Mattias Möller og Skúla Frey Sigurðssyni.

Bæði liðin spiluðu mjög vel í undanriðlinum í liðakeppninni og tókst strákunum að tryggja sig inn í 16 liða úrslitin. Stelpurnar voru grátlega nærri því að ná sama árangri en einungis vantaði tvo pinna upp á það að þær kæmust áfram, 17. sæti því niðurstaðan hjá þeim.

16 liða úrslitin skiptust í tvo 8 liða riðla þar sem allir mættu öllum, sigur gaf 3 stig og jafntefli 1 stig, efstu tvö liðin úr hvorum riðli fara svo áfram í undanúrslit. Íslensku strákarnir enduðu með 7 stig eftir krefjandi riðil og enda því í 12. sæti af 39 þjóðum sem er besti liðsárangur sem Ísland hefur náð á heimsmeistaramóti.

„Þetta er algjörlega frábær árangur og greinilegt að framtíðin er björt innan keilunnar á íslandi. Þetta er besti liðsárangur sem við höfum náð á heimsmeistaramóti og nú er það okkar sem sambands að tryggja áframhaldandi uppbyggingu íþróttagreinarinnar á Íslandi,“ segir Jóna Guðrún Kristinsdóttir, formaður Keilusambandsins.

„Keilufélögin hér á landi hafa skilað öflugu og metnaðarfullu starfi sem skilar sér í frábærum árangri síðustu ár, sem dæmi má nefna að Arnar Davíð Jónsson varð sigurvegari Evróputúrsins árið 2019 og einnig erum við að sjá frábæran árangur á fyrsta degi öldungamóts sem stendur yfir núna. Það kemur því í hlut Keilusambandsins að styðja við starfsemi félaganna og virkja þannig enn frekar þessa frábæru íþrótt og iðkendur til enn stærri sigra.“

Keppni í blönduðum liðum hefst í dag og verður spennandi að fylgjast með gengi liðanna þar. Áhugasamir geta fylgst með gangi mála á vefsíðu sambandsins www.kli.is