Fara í efni
Íþróttir

Besti árangur í 19 ár en samt vonbrigði

FH-ingurinn Ólafur Guðmundsson reynir að koma boltanum af hættusvæðinu eftir að Elfar Árni Aðalstein…
FH-ingurinn Ólafur Guðmundsson reynir að koma boltanum af hættusvæðinu eftir að Elfar Árni Aðalsteinsson skaut í stöng seint í leiknum. Nökkvi Þeyr Þórisson til vinstri og Mark Gundelach á milli Ólafs og Gunnars Nielsen markvarðar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA og FH gerðu jafntefli, 2:2, í lokaumferð Íslandsmótsins í knattspyrnu, Pepsi Max deildinni, á Akureyri í dag. KA endar því í fjórða sæti deildarinnar en KR náði þriðja sæti, með sigri á Stjörnunni.

Þar með urðu vonir KA-manna um sæti í Evrópukeppni á næsta ári að engu en KR-ingar lifa í voninni. Árangur KA í ár er sá besti í deildinni síðan 2002, þegar félagið lenti líka í fjórða sæti, en vonbrigðin engu að síður mikil.

  • 0:1 (28. mínúta) Ólafur Guðmundsson skoraði af stuttu færi eftir sjaldgæf mistök Steinþórs Más markvarðar, sem missti boltann eftir hornspyrnu.
  • 1:1 (52.) Nökkvi Þeyr Þórisson skoraði með frábæru skoti; fékk boltann við hægra vítateigshornið og sendi hann efst í hornið fjær með vinstra fæti.
  • 1:2 (54.) Oliver Heiðarsson fékk sendingu inn fyrir vörn KA og vippaði yfir Steinþór markvörð, sem kom út á móti honum.
  • 2:2 (90.) Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði úr vítaspyrnu.

KA þurfti að sigra til að ná þriðja sætinu og hefði getað náð því markmiði með heppni, en að sama skapi má segja að FH hefði líka getað skorað meira. FH-ingar voru betri í leiknum og miðað við hve mikið var (mögulega) í húfi var frammistaða KA-manna vonbrigði.

Víkingar urðu Íslandsmeistarar í dag í fyrsta skipti í 30 ár. Verði þeir líka bikarmeistarar fer liðið í þriðja sæti deildarinnar í Evrópukeppni á næsta ári.

  • Mark Hallgríms Mar Steingrímssonar í dag var það 11. í deildinni í sumar. Árni Vilhjálmsson, Breiðabliki, gerði einnig 11 mörk og aðeins einn skoraði meira en þeir, Víkingurinn Nikolaj Hansen sem gerði 16 mörk og fær gullskóinn.
  • KA-maðurinn Dusan Brkovic var rekinn af velli á 86. mín. Fékk þá gult spjald öðru sinni í leiknum og þar með rautt, fyrir afar litlar sakir. Dusan er þess vafasama heiðurs aðnjótandi að hafa verið rekinn útaf í báðum leikjunum við FH í sumar.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna

Smellið hér til að sjá lokastöðuna í deildinni.

Sebastiaan Brebels, Matthías Vilhjálmsson, Rodrigo Gomes Mateo, Steinþór Már Auðunsson, Ólafur Guðmundsson, Mikkel Qvist, Jakob Snær Árnason og Dusan Brkovic. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.