Fara í efni
Íþróttir

Barátta KA/Þórs við Hauka að hefjast

Stelpurnar í KA/Þór fagna vonandi eftir leikinn við Hauka í kvöld! Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Stelpurnar í KA/Þór fagna vonandi eftir leikinn við Hauka í kvöld! Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Íslandsmeistarar KA/Þórs taka á móti Haukum í kvöld í KA-heimilinu í umspili um sæti í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í handbolta. Sigra þarf í tveimur leikjum til að komast áfram og liðin mætast aftur á sunnudaginn, á Ásvöllum í Hafnarfirði. Þurfi þriðja leikinn verður hann í KA-heimilinu á þriðjudag í næstu viku.

KA/Þór mætti Haukum tvisvar í deildinni í vetur eins og öðrum liðum; Haukar unnu fyrri leikinn örugglega í Hafnarfirði í desember, 34:27, en KA/Þór hefndi fyrir það með álíka öruggum sigri í KA-heimilinu í mars, 34:26.

ÍBV og Stjarnan mætast einnig í umspili um sæti í undanúrslitunum. Fyrsti leikur liðanna er í kvöld, strax á eftir leiknum í KA-heimilinu. Allir leikir í umspilinu verða sýndir beint á Stöð 2 Sport.