Fara í efni
Íþróttir

Auðvelt hjá KA gegn stigalausu ÍR-liði

KA-menn unnu mjög auðveldan skyldusigur á botnliði ÍR, 32:22, í Olísdeild Íslandsmóts karla í handbolta í Reykjavík í dag. Strax var ljóst hvert stefndi því KA gerði fyrstu fimm mörkin og ÍR skoraði ekki fyrr en eftir 10 mínútur. Staðan í hálfleik var 14:9, KA-menn héldu sínu striki og luku dagsverkinu með sóma.

Óþarfi er að hafa mörg orð um leikinn því tölurnar segja allt sem segja þarf. Þó er ástæða til að vekja sérstaka athygli á framlagi Árna Braga Eyjólfssonar því hann fór á kostum í KA-liðinu; skoraði 14 mörk úr jafn mörgum skotum! Fimm markanna gerði Árni Bragi úr víti. Áki Egilsnes og Patrekur Stefánsson gerðu 4 mörk hvor, Einar Bragi Stefánsson 3, Ólafur Gústafsson og Sigþór Gunnarsson 2 hvor og Arnór Ísak Haddsson og Allan Norðberg 1 hvor. Nicholas Satchwell varði 9 skot, þar af 2 víti.

KA er í 7. sæti deildarinnar en á tvo leiki til góða á liðin fyrir ofan og með sigri í báðum – gegn Aftureldingu að Varmá og FH á Akureyri – færu KA-menn upp í 3. - 5. sæti, að hlið Vals og ÍBV.

„Við ákváðum að fresta tveimur leikjum, vitandi að leikjaálagið yrði mikið. Við kvörtum ekki yfir því og hlökkum mjög til. Þetta eru leikir sem við erum að fara spila sem eru upp á líf og dauða um hvort við komumst í úrslitakeppnina og ná sem besta sæti,“ sagði Jónatan Magnússon, þjálfari KA, í viðtali við Vísi eftir leikinn í dag.