Fara í efni
Íþróttir

Ást Íslendinga á enska boltanum

Orri Páll Ormarsson og ljón heimilisins. Til hægri: Gary Bailey, markvörður Manchester United, horfi…
Orri Páll Ormarsson og ljón heimilisins. Til hægri: Gary Bailey, markvörður Manchester United, horfir á eftir boltanum smjúga framhjá stönginni í leik gegn Liverpool 1980. Mynd úr bók Orra, tekin af Akureyringi á unglingsaldri, sem nú er ritstjóri Akureyri.net!

„Það er eitthvað ómótstæðilega heillandi við ensku knattspyrnuna, hraðinn, spennan, menningin, allt. Hún smýgur án fyrirhafnar inn að beini og hreiðrar þar um sig,“ segir Akureyringurinn Orri Páll Ormarsson, blaðamaður á Morgunblaðinu, sem hefur skrifað bók um ást Íslendinga á ensku knattspyrnunni. Bókina kallar Orri Í faðmi ljónsins – ástarsaga.

Svo mikið er víst að á Akureyri er að finna mikinn fjölda eldheitra stuðningsmanna enskra knattspyrnufélaga, örugglega ekki hlutfallslega færri en annars staðar. Orri Páll var sannarlega einn þeirra á yngri árum, áður en hann hleypti heimdraganum, og ekki hefur dregið úr ástríðunni eftir því sem árin líða.

Bókin er einstaklega skemmtileg. Orri stendur sannarlega undir þeim titli sem vinir hans nota gjarnan þegar hann er í ham: Maradona lyklaborðsins! Með vísan í argentínska fótboltaséníið Diego Armando Maradona.

„Það var ást við fyrstu sýn þegar móðir mín setti mig niður á gæruna fyrir framan svarthvítt sjónvarpið og enska knattspyrnan var í gangi. Í stað þess að fara í loftköstum um íbúðina sat ég hreyfingarlaus í andakt og starði opinmynntur á dýrðina. Og hef gert æ síðan,“ segir Orri, beðinn um að útskýra eigin ást á enska fóboltanum. Hann er eldheitur stuðningsmaður Arsenal.

„Ég man ekki nákvæmlega hvenær eða hvers vegna Arsenal varð mitt lið, líður eins og ég hafi bara fæðst þannig, en líklegasta skýringin er sú, eins og hjá svo mörgum, að faðir minn heldur með liðinu. Minnist þess þó ekki að hafa séð hann fara af hjörunum vegna gengis Arsenal meðan ég var að vaxa úr grasi; hann er miklu líklegri til þess í dag. Missir ekki af leik.“

Spennuferð með strætó að ná í Shoot

Barnungur sýndi Orri Páll þessari „þjóðaríþrótt Íslendinga“ – eins og hann kallar ensku knattspyrnuna oft – mikinn áhuga. „Partur af sjarmanum var að afla upplýsinga. Netið var fjarlæg framtíðarmúsík og ég man þá tíð að maður þurfti að bíða fram á næsta dag eftir úrslitum leikja í miðri viku, ef ekki var um þau getið í útvarpsfréttum áður en maður fór að sofa. Og ekki fékk maður nýjustu tölur með kornflexinu að morgni, því dagblöðin voru ekki borin út á Akureyri fyrr en um eða eftir hádegi. Stiginn heima í Smárahlíðinni var tekinn í fáum skrefum þegar maður sá blaðberann nálgast. Og svo hafði Arsenal kannski bara tapað!

Man líka eftir að hafa barist við hjartsláttinn í strætó á leið niður í Bókabúð Jónasar í Hafnarstrætinu til að sækja Shoot! og seinna Match enda voru þessi tímarit hafsjór af fróðleik. Og kenndu mér heimsmálið.

Ekki má heldur gleyma BBC World Service, þar sem hlusta mátti á beinar útvarpslýsingar frá leikjum síðdegis á laugardögum. Paddy Feeny var með alla þræði á hendi og ég áttaði mig snemma á því að til þess að ná sem bestum skilyrðum á stuttbylgju borgaði sig að setja loftnetið út um gluggann á herberginu mínu. Það var svo sem allt í lagi að hausti og vori en um hávetur, þegar frostið beit, varð gjarnan býsna kalt í herberginu. Þá var ekkert annað í stöðunni en að sækja ullarteppið og hlusta áfram.“

Verkalýðsforingi á Wembley 1924

Spurður um ástæðu þess að hann réðst í að skrifa bókina svarar Orri: „Ég veit að margir deila áþekkum minningum með mér og þess vegna langaði mig til að skrifa bók um þetta ástarævintýri íslensku þjóðarinnar og ensku knattspyrnunnar. Sem eins og einn viðmælandi minn í bókinni orðar það er „galið, alveg galið". Hvers vegna í ósköpunum hefur spark á fjarlægri eyju svona ofboðslega djúpstæð áhrif á sálarlíf heillar þjóðar?

Ég byrjaði á því að leggjast í grúsk, fletta gömlum blöðum í ofboði og komst að því að þessi mikli áhugi byrjar fyrr en ég átti von á. Heimildir eru fyrir því að íslensk blöð hafi gert sér grein fyrir áhuga Íslendinga á ensku knattspyrnunni fyrir seinna stríð. Elsta heimildin sem ég vísa til er þegar Héðinn Valdimarsson verkalýðsforingi skellti sér á Wembley-leikvanginn í Lundúnum og sá úrslitaleik Newcastle og Aston Villa í bikarnum vorið 1924. Og féll að vonum í stafi.“

„Hann ber ábyrgð á þessu!“

„Framan af var fjallað um ensku knattspyrnuna af takmarkaðri þekkingu og innsæi í íslenskum blöðum en það breyttist svo um munaði er frá leið. Áratugum saman kepptu íslensk blöð sín á milli um mestu og bestu umfjöllunina og kappið var síst minna en inni á vellinum sjálfum. Það sætti stórtíðindum strax 1947 þegar fyrsta enska atvinnumannaliðið kom hingað í heimsókn, Queens Park Rangers, og þegar barnungarnir hans Busbys fórust í flugslysinu í München 1958 var það forsíðufrétt á flestum blöðum.

Tilkoma getrauna 1952 er sögð hafa aukið áhuga þjóðarinnar á ensku knattspyrnunni og enn frekari vatnaskil urðu þegar sjónvarpið hóf að sýna frá leikjum á Englandi árið 1967. Þar stóð Bjarni nokkur Felixson í stafni og færði okkur ensku knattspyrnuna í þrjá áratugi. Eða eins og blaðamanni The Guardian var bent á þegar hann var að kynna sér þessa ástarsögu fyrir nokkrum árum: „Talaðu við þennan. Hann ber ábyrgð á þessu!"

Að sjálfsögðu er rætt við Bjarna Fel. í bókinni.“

Sumir jafnvel galnari en ég sjálfur!

„Auk þess að rekja sögu umfjöllunar um ensku knattspyrnuna á Íslandi, í blöðum, sjónvarpi og útvarpi, segi ég frá minni eigin upplifun af því að skrifa um þjóðaríþróttina í Morgunblaðinu í um aldarfjórðung og ræði við menn sem hafa gert það ennþá lengur. Ég rifja líka upp leiki íslenskra og enskra liða á Evrópumótum og heimsóknir enskra liða hingað í fásinnið. Þarna er líka sagt frá öllum þeim íslensku leikmönnum sem leikið hafa á England og kaupum Íslendinga á Stoke City og West Ham United. Annars eru leikmenn og lið þannig lagað í aukahlutverki í bókinni, áherslan er á umfjöllunina, andrúmsloftið og áhugann hér á landi og okkur, aðdáendurna. Rætt er við á annan tug aðdáenda sem segja frá ást sinni á sínu liði og draga ekkert undan. Sumt af þessu fólki er alveg eins galið og ég sjálfur, sumt jafnvel galnara! En býr að þeim ótvíræða kosti að hafa húmor fyrir sjálfu sér.“

Síðast en ekki síst veltir Orri fyrir sér ástæðum ofboðslegra vinsælda ensku knattspyrnunnar á Íslandi og fær álitsgjafa að borðinu. „Ég veit svo sem ekki hvort niðurstaðan er afgerandi, enda um samspil margra þátta að ræða, að öðru leyti en því að enska knattspyrnan er bara svo ofboðslega, ofboðslega skemmtileg. Og við heppin að eiga hana að, ljónheppin!“