Fara í efni
Íþróttir

Árni Bragi fer til Aftureldingar í sumar

Árni Bragi Eyjólfsson, markahæsti leikmaður KA í vetur. Ljósmynd: Þórir Tryggvason.

Handboltamaðurinn Árni Bragi Eyjólfsson, sem leikur með KA í vetur, hefur samið við Aftureldingu til þriggja ára og gengur til liðs við félagið í sumar. Greint var frá þessu á Facebook síðu Aftureldingar í kvöld.

Árni Bragi er 26 ára, örvhentur hornamaður eða skytta. „Árna þarf ekki að kynna fyrir Mosfellingum þar sem hann tók sín fyrstu skref í meistaraflokki hjá Aftureldingu og var burðarás í liði okkar til margra ára,“ segir á síðu Aftureldingar.

Árni er markahæsti leikmaður KA í vetur – hefur gert 84 mörk í Olísdeildinni. Hann kom til KA í fyrrasumar, eftir að hafa leikið í eitt ár með Kolding í Danmörku. Gerði tveggja ára samning en heldur nú á fornar slóðir eftir eitt keppnistímabil nyrðra.