Fara í efni
Íþróttir

Arnar Grétarsson með KA næsta sumar

Arnar Grétarsson þjálfari KA. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.
Arnar Grétarsson þjálfari KA. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Arnar Grétarsson verður áfram þjálfari knattspyrnliðs KA næsta sumar. Liðið er í þriðja sæti í Pepsi Max deild Íslandsmótsins fyrir síðustu umferðina á morgun og gæti leikið í Evrópukeppni á næsta ári.

Tilkynnt var um samkomulag Arnars og KA á heimasíðu félagsins í dag:

„Knattspyrnudeild KA og Arnar Grétarsson hafa gengið frá samkomulagi um að Arnar muni áfram stýra liði KA á næstu leiktíð. Arnar sem tók við liðinu um mitt seinasta sumar hefur komið af miklum krafti inn í félagið og lyft öllu starfi okkar upp á hærra plan.

KA liðið situr í 3. sæti Pepsi Max deildarinnar fyrir lokaumferðina sem fer fram á morgun en þá mætir KA liði FH á Greifavellinum á Akureyri og hefst leikurinn 14:00. Sigur í leiknum myndi tryggja næstbesta árangur félagsins í sögunni auk þess sem að þriðja sætið gæti gefið þátttökurétt í Evrópukeppni að ári.

Ekki einungis hefur Arnar leitt árangur liðsins innan vallar, sem verið hefur til fyrirmyndar, heldur hefur hann komið með sína miklu þekkingu á alþjóðlegri knattspyrnu inn í allt starfið í kringum knattspyrnudeild KA. Þannig er allt þjálfarateymið skipulagt til að þroska leikmenn og liðsheild þannig að bæði félagið sem og einstaklingar innan liðanna nái stöðugt að bæta sig.

Arnar Grétarsson á að baki farsælan feril sem leikmaður hér heima, en einnig lék hann lengi vel sem atvinnumaður, bæði á Grikklandi og í Belgíu. Arnar á að baki 71 landsleik fyrir Íslands hönd. Sem þjálfari hefur hann stýrt Breiðablik og KA hér heima og KSV Roeselare í Belgíu auk þess sem hann var yfirmaður knattspyrnumála hjá AEK Aþenu í Grikklandi og Club Brugge í Belgíu.

Það er okkur hjá KA því mikið ánægjuefni að halda Arnari áfram innan okkar raða og hlökkum við svo sannarlega til að halda því samstarfi áfram á næsta tímabili.“