Fara í efni
Íþróttir

Arna Sif skoraði og var valin best!

Arna Sif, fyrir miðju, á æfingu á dögunum. Önnur frá vinstri er Zaneta Wyne, sem lék með Þór/KA 2016 og 2017. Mynd af heimasíðu Glasgow City.

Arna Sif Ásgrímsdóttir, fyrirliði Þórs/KA í knattspyrnu, byrjaði frábærlega með skoska meistaraliðinu Glasgow City í gær; hún var eins og klettur í miðju varnarinnar, skoraði með skalla eftir horn og var valin besti maður vallarins, í fyrsta leiknum með liðinu í skosku úrvalsdeildinni.

Glasgow City, meistari síðustu 13 ára í Skotlandi, mætti liði Celtic á útivelli í gær og vann öruggan sigur, 3:0. Arna, sem var lánuð til Glasgow til vors, fór utan um áramót en vegna kórónuveirufaraldursins hefur ekkert verið spilað þar til í gær.

Hart barist

„Þetta var hörkuleikur. Ég þekkti náttúrlega ekkert til andstæðingsins en stelpurnar höfðu talað mikið um að þessir leikir við Celtic væru alltaf mikil barátta og jafnvel slagsmál, og að liðið sem væri tilbúnara í slaginn mynda vinna leikinn. Og það reyndist alveg rétt; mikið var um tæklingar og brot. Aðstæðurnar voru ekkert uppá 10, rok og lélegt gervigras, og það tók okkur smá tíma að komast í takt en svo var þetta í raun aldrei spurning,“ sagði Arna við Akureyri.net í gærkvöldi.

Hún gat ekki neitað því að frammistaðan var góð, enda var Arna valin maður leiksins. „Já, mér gekk vel! Auðvitað er alltaf hægt að gera betur, mér fannst ég svolítið ryðguð í byrjun en svo var þetta mjög gott.“

Arna hefur ekki séð neina leiki með öðrum liðum, eins og nærri má geta, en telur eftir fyrstu kynni að fótboltinn í Skotlandi henti sér vel. „Það er mikið af löngum sendingum sem hentar mér ágætlega að verjast. Og mikið um baráttu og slagsmál, sem er gaman! En ég tek fram að ég veit ekki hvort öll liðin spila svona.“

Ekki flókið plan, bara að finna Örnu!

Hún var spennt að byrja eftir langa bið og leið vel. „Tilfinning var mjög góð. Það var smá stress í morgun enda spilaði ég síðast leik í september. En ég var fljót að hrista það af mér; það var snilld að komast aftur á völlinn. Við erum búnar að æfa hrikalega vel, ég hef passað vel uppá mig og gert það sem ég þarf til að vera klár í slaginn!“

Arna var að sjálfsögðu ánægð með að hafa skorað: „Það er alltaf gaman að skora! Glasgow hefur ekki verið þekkt fyrir að skora mörg mörk eftir föst leikatriði og þau setja pressu á mig að breyta því. Það var eitt af því sem þjálfarinn talaði mikið um áður en ég samdi. Nú leggjum við mikið upp úr því að nýta föst leikatriði og planið er ekkert sérstaklega flókið; bara finna Örnu! Svo það var gaman að geta sett mark eftir eitt hornið.“

Einn liðsfélaga Örnu hjá Glasgow er Zaneta Wyne, sem er stuðningsmönnum Þórs/KA að góðu kunn; þessi snjalli bandarísk/franski leikmaður var í herbúðum Þórs/KA tvö sumur, 2016 og 2017, og varð Íslandsmeistari seinna árið. Zaneta kom til Glasgow-liðsins síðastliðið sumar.

„Ég þekkti hana ekkert fyrir,“ segir Arna, sem lék með Val þau tvö ár sem Zaneta var á Akureyri. „En við náum rosalega vel saman. Við búum reyndar saman hér og ég er mjög þakklát fyrir að hafa kynnst henni. Zaneta hefur reynst mér vel!“ sagði Arna Sif við Akureyri.net í gærkvöldi.

Eftir leiki dagsins eru lið Rangers og Glasgow City efst og jöfn með 21 stig að loknum átta leikjum – hafa unnið sjö og tapað einum. Rangers er með betri markatölu. Celtic er í þriðja sæti með 16 stig.

Smellið hér til að sjá myndband af marki Örnu