Fara í efni
Íþróttir

Anna María og Alfreð eru bogfimifólk ársins

Feðginin Anna María Alfreðsdóttir og Alfreð Birgisson - bogfimifólk ársins á Íslandi.

Feðginin Anna María Alfreðsdóttir og Alfreð Birgisson úr íþróttafélaginu Akri voru valin íþróttafólk ársins hjá Bogfimisambandi Íslands að þessu sinni. Þetta var tilkynnt í dag. Akureyringi hefur aldrei hlotnast þessi heiður áður, hvorki verið bogfimikona né bogfimimaður ársins.

Á heimasíðu Bogfimisamnbands Íslands er rifjað upp hve Anna stóð sig vel á árinu í keppni með trissuboga. Hún var til dæmis „ekki langt frá því að vinna til verðlauna á Evrópumeistaramóti á árinu, en hún keppti fimm sinnum til úrslita á Evrópumeistaramótum. Til viðbótar við það vann Anna til nokkurra verðlauna í B/C landsliðsverkefnum. Anna vann þrjá Íslandsmeistaratitla á árinu og sló 18 Íslandsmet,“ segir þar meðal annars.

Anna var annar hæsti Norðurlandabúi á heimslista trissuboga kvenna og komst á lista yfir bestu 30 í Evrópu og 60 bestu í heiminum, að því er segir á vef Bogfimisambandsins.

Alfreð keppti til úrslita með trissuboga á Evrópumeistaramótinu innandyra í febrúar í Slóveníu ásamt félögum sínum í landsliðinu. Þar urðu Íslendingar í áttunda sæti og liðið varð í 17. sæti á EM utandyra. Þá vann Alfreð silfur á heimsleikum lögreglu- og slökkviliðsmanna, hann varð Íslandsmeistari, bæði innandyra og utan í trissuboga, og sló þrjú Íslandsmet.

Nánar hér á heimasíðu Bogfimisambands Íslands.