Fara í efni
Íþróttir

Anna María bætti þrjú Íslandsmet um helgina

Anna María Alfreðsdóttir á mótinu um helgina þar sem hún náði glæsilegum árangri. Mynd af vef Bogfimisambands Íslands.

Bogfimikonan Anna María Alfreðsdóttir úr íþróttafélaginu Akri setti Íslandsmet í fullorðinsflokki og flokki 21 árs og yngri í keppni með trissuboga um helgina. Þá bætti hún Íslandsmet í parakeppni með föður sínum, Alfreð Birgissyni. Keppt var á Stóra-Núpi suður á landi en um var að ræða fyrstu keppni í þriggja móta röð sem kennd er við staðinn.

„Veðrið í undankeppni mótsins var með því besta sem þekkist á Íslandi, sól, heitt og lítill sem engin vindur. Fullkomnar aðstæður til að setja met,“ segir á vef Bogfimisambands Íslands.

„Anna María Alfreðsdóttir í ÍF Akur átti hreint frábæran dag í undankeppni mótsins og bætti Íslandsmet fullorðinna (Opinn flokkur) og U21 um fjögur stig með skorið 683. Eldri metin voru 679 stig sem Anna var nýbúin að slá á Veronicas Cup Heimslistamótinu í Slóveníu 5.-8. maí, þar sem hún vann einnig brons verðlaun fyrir Ísland. Anna María er besta von Íslands til þess að vinna þátttökurétt á Evrópuleikana 2023 í trissuboga kvenna.“

Alfreð faðir Önnu Maríu átti einnig mjög góðan dag „með skorið 673 sem er aðeins fjórum stigum frá Íslandsmeti trissuboga karla og hans persónulega besta skor.“

Feðginin urðu efst í blandaðri liðakeppni með trissuboga, og kemur ekki á óvart miðað við gott gengi beggja. Í liðakeppni, sem einnig er kölluð parakeppni, er einn karla og ein kona, og settu feðginin nýtt Íslandsmet, fengu 1356 stig.

Anna María og Alfreð taka þátt í Evrópumeistaramótinu sem hefst í þýsku borginni München um næstu helgi ásamt 10 öðrum Íslendingum.

Á vef Bogfimisambandsins segir ennfremur um mót helgarinnar að eftir undankeppnina, sem notuð er til þess að raða íþróttafólki upp í útsláttarkeppni, hafi vindurinn aukist töluvert og stigaskorið lækkað verulega.

Sigurvegarar á mótinu urðu þessir:

  • Anna María Alfreðsdóttir ÍF Akur – trissubogi kvenna
  • Alfreð Birgisson ÍF Akur – trissubogi karla
  • Marín Aníta Hilmarsdóttir BF Boginn – sveigbogi kvenna
  • Dagur Örn Fannarsson BF Boginn – sveigbogi karla
  • Izaar Arnar Þorsteinsson ÍF Akur – berbogi

Alfreð Birgisson á mótinu um helgina.

Verðlaunahafar á mótinu á Stóra Núpi um helgina.