Fara í efni
Íþróttir

Anna Íslandsmeistari og fékk brons á NM

Anna María Alfreðsdóttir - Íslandsmet, Íslandsmeistaratitill og brons á Norðurlandamóti.

Anna María Alfreðsdóttir, íþróttafélaginu Akri á Akureyri, varð Íslandsmeistari ungmenna (U 21) í keppni með trissuboga á laugardag, þegar Íslandsmótið í bogfimi fór fram á Haukavelli í Hafnarfirði. Ekki nóg með það heldur setti hún Íslandsmet, og fékk bronsverðlaun á Norðurlandamóti ungmenna, sem einnig var haldið um helgina.

Anna María fékk 640 stig í undankeppni Íslandsmótsins, sem er aðeins tveimur stigum frá eigin Íslandsmeti, sem hún setti í fyrrasumar, skv. upplýsingum frá Bogfimisambandi Íslands.

Í úrslitunum hafði Anna María betur gegn Söru Sigurðardóttur úr BF Boganum og setti þá Íslandsmet í aldursflokknum, fékk 137 stig en Sara 130. Keppendur skjóta 15 örvum í úrslitunum, en mun fleiri í undankeppninni.

Norðurlandameistaramót (NM) ungmenna fór svo fram í gær og þá fékk Anna bronsverðlaun; varð í þriðja sæti með 606 stig. Mótið var haldið með óvenjulegu sniði að þessu sinni vegna Covid-19; mót var haldið í hverju landi og úrslit allra giltu sem um eitt Norðurlandamót væri að ræða. Í tilkynningu frá Bogfimisambandi Íslands segir að ef Anna hefði fengið jafn mörg stig og á Íslandsmótinu daginn áður hefði hún unnið til silfurverðlauna. Á síðasta ári varð hún Íslandsmeistari 18 ára og yngri, Norðurlandamótinu var þá frestað en á NM 2019 fékk hún brons. „Anna var ánægð en ekki alveg sátt við það að fá sömu verðlaun á NUM þetta árið þar sem hún miðar hærra í íþróttinni og þráir titilinn,“ segir í tilkynningu frá Bogfimisambandinu eftir mótið um helgina.

Heimasíða Bogfimisambands Íslands