Fara í efni
Íþróttir

Andrés önd kominn á kreik á nýjan leik

Ljósmyndir: Pedromyndir

Andrésar andar leikarnir í skíðaíþróttum verða haldnir í 46. skipti í Hlíðarfjalli nú í vikunni; leikarnir verða settir á miðvikudag, 20. apríl, og keppni stendur yfir frá fimmtudegi til laugardags 23. apríl. Að þessu sinni eru 776 börn frá 18 félögum skráð til leiks, þegar Andrés snýr loks aftur en leikarnir hafa ekki farið fram síðustu tvö ár vegna Covid-19

Andrésarleikarnir, sem Skíðafélag Akureyrar heldur, eru stærsta skíðamót landsins. Þáttakendur eru alla jafna um 800 á aldrinum 4 til 15 ára. Þeim fylgja þjálfarar, fararstjórar, foreldrar og fjölskyldur og má því gera ráð fyrir að um 2500-3000 manns sæki leikana.

„Um langt skeið hefur verið keppt bæði í alpagreinum skíðaíþrótta sem og skíðagöngu, en árið 2012 var í fyrsta skipti keppt á snjóbrettum og hefur sú grein verið að eflast og stækka innan leikanna.

Einnig hefur verið keppt í svokölluðum stjörnuflokki um nokkurra ára skeið, en þar keppa fatlaðir eða hreyfihamlaðir íþróttamenn.

Nú er 4 og 5 ára börnum einnig boðið að taka þátt í leikunum. Þessi börn taka þátt í leikjabraut þar sem allt snýst um að vera með og skemmta sér, en ekki að sigra. Fá allir þátttakendur í leikjabraut verðlaun fyrir þátttökuna og allir fara því brosandi heim. Í ár eru 54 börn á þessum aldri skráð til leiks,“ segir í tilkynningu frá Skíðafélagi Akureyrar.

„Eftir örlítið risjóttan skíðavetur um allt land eru aðstæður í Hlíðarfjalli nú með góðu móti og snjómagn í meðallagi. Búast mótshaldarar við miklu fjöri á leikunum í ár, sérstaklega þar sem ekki hefur tekist að halda leikana tvö undanfarin ár sökum faraldursins. Andrésarleikarnir eru alltaf hápunktur hvers skíðavetrar hjá börnunum og marga sem þyrstir í að koma til Akureyrar og taka þátt í fjörinu.“

Nú eru 776 börn skráð frá 18 félögum á Íslandi. Flestir iðkendur koma frá heimamönnum í Skíðafélagi Akureyrar eða 134 keppendur. Í heildina eru 580 þátttakendur skráðir í alpagreinar, 138 í skíðagöngu og 76 í brettakeppnina. Af þessum eru þrír skráðir í stjörnuflokk.

Að venju verða leikarnir settir í Íþróttahöllinni á miðvikudagskvöldi að lokinni myndarlegri skrúðgöngu allra þátttakenda frá íþróttasvæði KA kl. 19.00. Fimmtudag, föstudag og laugardag er svo keppt í öllum greinum, auk þess sem yngri þátttakendur fara í leikjabrautir. Veglegar kvöldvökur og verðlaunaafhendingar í Íþróttahöllinni eru í lok hvers keppnisdags.

„Líflegur fréttaflutningur verður á Facebook síðu leikanna auk þess sem úrslit og fleiri fréttir verða birt á www.skidi.is

Einkunnarorð Andrésar andar leikanna eru; Njótum og skemmtum okkur saman!“