Fara í efni
Íþróttir

Alfreð og Anna María með ágætan árangur

Anna María spennir bogann á mótinu í Englandi á dögunum.

Anna María Alfreðsdóttir og Alfreð Birgisson, bogfimifeðginin úr Íþróttafélaginu Akri, kepptu núna í byrjun apríl á Evrópubikarmóti sem fram fór í Bretlandi, ásamt undankeppni Evrópuleikanna. Anna María komst ásamt liði Íslands í átta liða úrslit í þriggja kvenna liðum, en þar töpuðu íslensku konurnar naumlega fyrir þeim þýsku, 207-211, og enduðu því í 5. sætinu.

Anna María keppti einnig í tveimur einstaklingskeppnum, annars vegar Evrópubikarmóti og hins vegar í undankeppni Evrópuleikanna.

Hún endaði í 17. sæti í einstaklingshluta undankeppni Evrópuleikanna, sem er sér mót haldið til hliðar við Evrópubikarmótið. Þar var keppt um síðustu sætin á Evrópuleikunum 2023. Þar mætti hún hinni þýsku Juliu Boehnke. Sú þýska hafði betur, 139-132. Það þýddi að Anna María komst ekki áfram í 16 manna úrslit og náði því ekki að vinna þátttökurétt fyrir Ísland á Evrópuleikunum að þessu sinni.

Í einstaklingskeppni Evrópubikarmótsins varð Anna María í 33. sæti, en þar mætti hún Grace Chappell frá Bretlandi. Sú breska vann, 137-131, og komst Anna María því ekki áfram í 32ja manna úrslit.

Alfreð Birgisson á mótinu í Englandi fyrr í mánuðinum.

Alfreð og heimsmeistarinn úti í kuldanum

Alfreð Birgisson keppti ásamt tveimur öðrum í þriggja karla liði og biðu þeir lægri hlut á móti Bretum, 211-223 í 16 liða úrslitum. Alfreð keppti einnig í parakeppni eða tveggja keppenda blönduðu liði og tapaði þar einnig í 16 liða úrslitum, 145-151, á móti Þýskalandi.

Alfreð náði ekki inn í 32ja manna úrslitin í undankeppni Evrópuleikanna, tapaði þar á móti Nathan Macqueen frá Bretlandi, 136-145. Hann endaði því í 33. sæti og náði ekki að vinna þátttökurétt á Evrópuleikunum.

Alls fá 15 karlar þátttökurétt í keppni með trissuboga á Evrópuleikunum og var búið að úthluta flestum sætunum þegar á EM 2022, en keppt um fimm síðustu sætin á þessu móti. Til marks um það hve hörð keppnin er má nefna að ásamt Alfreð náði ríkjandi heimsmeistari ekki að vinna sér þátttökurétt á Evrópuleikunum sem fram fara í Austurríki.

Í einstaklingskeppni Evrópubikarmótsins endaði Alfreð í 57. sæti eftir eins stigs tap í spennandi leik á móti Viktori Petrov frá Búlgaríu, 137-138.

Evrópubikarmótið var haldið í Lilleshall Sports Centre í Bretlandi 2.-8. apríl. Svæðið er eitt af þremur landsæfingasvæðum í Bretlandi og er heimasvæði Breska bogfimisambandsins og landsliða þeirra. Veðrið var mjög breytilegt yfir mótsdagana, alveg frá því að líkjast góðum íslenskum sumardögum yfir í hitastig í nánd við frostmark með rigningu og vindi – og allt þar á milli. Yfir 400 keppendur frá 40 þjóðum kepptu á Evrópubikarmótinu.

Ísland mætti Þýskalandi í 8 liða úrslitum á köldum, blautum og vindasömum degi. Íslensku stelpurnar frá hægri: Anna María Alfreðsdóttir, Freyja Dís Benediktsdóttir og Eowyn Mamalias.