Fara í efni
Íþróttir

Akureyrskt silfur og brons í sprettgöngu

Keppnin í karlaflokki var æsispennandi; Ólafur Björnsson, keppnisstjóri, sýnir hér Degi Benediktssyn…
Keppnin í karlaflokki var æsispennandi; Ólafur Björnsson, keppnisstjóri, sýnir hér Degi Benediktssyni, til vinstri, og Snorra Einarssyni myndbandsupptöku af því þegar þeir komu í mark. Snorri var örlítið á undan. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Linda Rós Hannesdóttir frá Ísafirði og Snorri Einarsson úr Ulli í Reykjavík urðu Íslandsmeistarar í sprettgöngu í dag. Skíðamót Íslands hófst þá í Hlíðarfjalli og í dag voru gengnir 1400 metrar með frjálsri aðferð. Gígja Björnsdóttir náði bestum árangri Akureyringa, fékk silfur, og Veronika Lagun, einnig úr Skíðafélagi Akureyrar, fékk bronsverðlaun. Enginn Akureyringar komst á verðlaunapall í karlaflokki.

Keppni hófst með undanrásum þar sem allir keppendur fóru í tímatöku. Hjá körlum fóru átta efstu í undanúrslit og fjórir bestu úr undanúrslitum í úrslit. Hjá konum fóru fjórar bestu úr undanrásum í úrslit.

Linda Rós Hannesdóttir sigraði eftir frábæran sprett í úrslitagöngunni og vann þar með ´Íslandsmeistaratitil í fullorðinsflokki í fyrsta skipti. Endaspretturinn hjá körlunum var æsispennandi; Phillip Bellingham frá Austurríki, gestur á mótinu, var fyrstur í mark en ekki var hægt að skera úr um hvor kæmi næstur og yrði þar með Íslandsmeistari fyrr en myndbandsupptaka var skoðuð. Þá kom í ljós að Snorri Einarsson var örlítið á undan Degi Benediktssyni með fótinn yfir marklínuna og fékk því gullið.

Úrslit dagsins

1. Linda Rós Hannesdóttir, Skíðafélagi Ísafjarðar

2. Gígja Björnsdóttir, Skíðafélagi Akureyrar

3. Veronika Lagun, Skíðafélagi Akureyrar

 

1. Snorri Einarsson, Skíðagöngufélaginu Ulli

2. Dagur Benediktsson, Skíðafélagi Ísafjarðar

3. Albert Jónsson, Skíðafélagi Ísafjarðar

Á morgun ganga karlarnir 15 km með frjálsri og konurnar 10 km, sömuleiðis með frjálsri aðferð.

Gígja Björnsdóttir, sem hér kemur í mark, stóð sig best Akureyringa, varð í öðru sæti í sprettgöngunni og hlaut því silfurverðlaun.