Fara í efni
Íþróttir

Aftur sigraði KA í jöfnum og spennandi leik

KA-menn fagna sigrinum í Höllinni í dag. Ljósmynd: Þórir Tryggvason.
KA-menn fagna sigrinum í Höllinni í dag. Ljósmynd: Þórir Tryggvason.

KA-menn lögðu Þórsara að velli í annað sinn á stuttum tíma, þegar liðin mættust í dag í efstu deild Íslandsmótsins í handbolta, Olísdeildinni. Lokatölur 21:19. Þetta var heimaleikur Þórs og fór því fram í Íþróttahöllinni.

KA vann nauman sigur á sama stað fyrir skömmu þegar liðin áttust við í bikarkeppninni og spennan var ekki minni í dag; þetta var þriðji leikur beggja liða á einni viku og margir dálítið þreyttir að sjá. Í stuttu máli sagt voru varnir liðanna mjög góðar og markvarslan einnig en sóknarleikurinn ekki til útflutnings, þegar á heildina er litið. Lítill hraði var í sókninni þótt vissulega hafi brugðið fyrir fínum köflum.

Þórsarar byrjuðu af miklum krafti og komust í 8:4 en eftir að KA-menn tóku leikhlé spýttu þeir í lófana og gerðu fjögur mörk í röð og staðan var enn jöfn þegar fyrri hálfleik lauk, 12:12.

Hræðileg meiðsli Valþórs

Þegar Þór og KA mætast – eins og gjarnan er um nágrannaslag af bestu gerð – eru úrslitin það eina sem máli skiptir. Enginn man, þegar frá líður, hvernig frammistaðan var. Eins var í dag; „tvö falleg stig í hús,“ sungu KA-menn að leikslokum og þau voru aðalmálið.

Þessa leiks verður reyndar minnst fyrir það að Valþór Atli Guðrúnarson, sá mikli handboltamaður í Þór, fór enn einu sinni úr axlarlið og ekki er ólíklegt að þar með hafi keppnisferli hans lokið. Ekkert skal þó fullyrt, en mikið var sorglegt að sjá hann yfirgefa völlinn af þessum sökum.

Brotthvarf hans ekki góð áhrif á samherjana og skyldi engan undra. Staðan var 18:18 þegar Valþór meiddist og lauk leik. Rúmar 11 mínútur voru þá eftir. Jovan Kukobat, markvörður Þórs, varði frá Andra Snæ í næstu sókn og Igor Kopyshynskyi kom heimaliðinu yfir eftir hraðaupphlaup en þar með dró ský fyrir sólu í sóknaraðgerðum Þórsara.

Allan Norðberg jafnaði fyrir KA úr horninu, Satchwell varð frá Garðari Þórs-fyrirliðia og Jón Heiðar Sigurðsson kom KA yfir. Staðan þá 20:19.

Ótrúlegt var að horfa upp á Þórsara síðustu 11 mínútur leiksins því þeir gerðu ekki mark allan þann tíma! Kukobat varði hvað eftir annað frábærlega en við hinn enda vallarins klúðruðu félagar hans hverri sókninni á fætur annarri; misstu boltann tvisvar klaufalega og í tvígang var dæmdur ruðningur. Satchwell í KA-markinu varði reyndar tvisvar mjög vel á lokamínútunum og þótt hans menn byðu sannarlega ekki upp á neinn glanssóknarleik gerðu þeir þrjú síðustu mörkin og fögnuðu sætum sigri. Andri Snær Stefánsson gerði 21. markið á lokasekúndunni eftir að Þórsarar reyndu hvað þeir gátu að ná boltanum.

KA-menn sýndu í leiknum gegn Val í vikunni að þeir gefast aldrei upp, og næla í stig þótt liðið sé ekki upp á sitt besta. Þórsarar geta betur og hefðu með meiri yfirvegum og skynsemi getað unnið í dag og málað bæinn rauðan og hvítan um stundarsakir! Menn voru vissulega slegnir út af laginu þegar Valþór meiddist en á ögurstundu var eins og sjálfstraustið væri ekki nægjanlegt, kappið bar skynsemina ofurliði og þeir nýttu ekki gullið tækifæri til að leggja erkifjendurna að velli.

KA-menn eru komnir upp í 5. sæti deildarinnar með 12 stig eftir 10 leiki en Þórsarar eru í erfiðleikum, með aðeins fjögur stig eftir 11 leiki, í næst neðsta sæti.

Gangur leiksins: 0:1, 1:3, 4:3, 4:4, 8:4, 8:8, 10:8, 12:12, 12:13, 13:15, 18:17, 19:18, 19:21.

Mörk Þórs: Igor Kopyshynskyi 6 (2 víti), Þórður Tandri Ágústsson 5, Gísli Jörgen Gíslason 4, Valþór Atli Guðrúnarson 2, Karolis Stropus 2.

Varin skot: Jovan Kukobat 15.

Mörk KA: Áki Egilsnes 7, Árni Bragi Eyjólfsson 5 (3 víti), Andri Snær Stefánsson 3, Patrekur Stefánsson 2, Einar Birgir Stefánsson 1, Allan Norðberg 1, Sigþór Gunnar Jónsson 1 og Jón Heiðar Sigurðsson 1.

Varin skot: Nicholas Satchwell 12. 

Öll tölfræði leiksins

Valþór Atli enn einu sinni úr axlarlið

Myndasyrpa Þóris Tryggvasonar