Fara í efni
Íþróttir

Aftur frestað hjá KA, Brynjar til Póllands

Brynjar Ingi Bjarnason og Keflvíkingurinn Ísak Óli Ólafsson á landsliðsæfingu í gær. Ljósmynd: fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð.

Leik KA og Breiðabliks í efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu, Pepsi Max deildinni, hefur aftur verið frestað. Hann átti upphaflega að fara fram um liðna helgi en vegna þess að bæði Brynjar Ingi Bjarnason, leikmaður KA, og Blikinn Gísli Eyjólfsson fóru með landsliðinu í Bandaríkjanna var honum frestað til 7. júní.

Eftir að Brynjar Ingi og Gísli voru báðir valdir til að fara einnig til Færeyja, þar sem Íslendingar mæta heimamönnum í vináttuleik á föstudaginn, var deildarleiknum frestað á ný og óljóst hvenær hann fer fram. Næsti leikur KA verður því gegn Akurnesingum á Skaganum sunnudaginn 13. júní.

Brynjar Ingi verður einnig með í för þegar landsliðið fer til Póllands frá Færeyjum en Íslendingar og Pólverjar mætast í vináttuleik í Poznan næsta þriðjudag.