Fara í efni
Íþróttir

Afrekssjóður styrkir 10 unga íþróttamenn

Hluti afreksefnanna sem fengu styrk. Frá vinstri: Karen Lind Helgadóttir, Katrín Rós Björnsdóttir, O…
Hluti afreksefnanna sem fengu styrk. Frá vinstri: Karen Lind Helgadóttir, Katrín Rós Björnsdóttir, Ormur Karl Jónsson, Jóhann Gunnar Finnsson, Salka Sverrisdóttir, Skarphéðinn Ívar Einarsson og Ævar Freyr Valbjörnsson. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Afrekssjóður Akureyrar styrkti 10 unga íþróttamenn í dag um 200.000 krónur hvern. Tilkynnt var um styrkinn á samkomu í menningarhúsinu Hofi þar sem kjöri íþróttafólks Akureyrar 2022 var lýst.

„Afrekssjóður styrkir ungmenni sem talin eru með markvissri þjálfun geta skipað sér á bekk með þeim bestu á landsvísu,“ eins og það var orðað í dag.

Afreksefnin eru þessi, og þau voru kynnt til leiks sem hér segir:

Birnir Vagn Finnsson – UFA

Birnir er einn efnilegasti fjölþrautamaður landsins og hefur metnað til að ná langt. Hann stefnir á þátttöku á Íslandsmeistaramóti í tugþraut og fjölþraut á árinu sem og Íslandsmeistaramóti 15-22 ára sem og fullorðinna innan og utanhúss. Hann er með metnaðarfull markmið og ekki ólíklegt að við eigum eftir að heyra nafn hans nefnt á sama tíma og Íslandsmeistaratitlar.

Glódís Edda Þuríðardóttir – KFA

Glódís Edda er afrekskona í frjálsum íþróttum. Hún er í A landsliði Íslands frá 2019 og er margfaldur Íslandsmeistari innan og utanhúss árið 2022. Glódís er nú í háskóla í Bandaríkjunum og keppir því erlendis á innanhússtímabilinu veturinn 2023 en stefnir á þáttöku í mótum innanlands í sumar. Þá mun hún verða á faraldsfæti með landsliðinu t.d. á smáþjóðaleikum og á EM U23 í Espoo í Finnlandi .

Ísfold Marý Sigtryggsdóttir – Þór/KA

Ísfold Marý er efnilegur leikmaður meistaraflokks Þórs/KA í knattspyrnu og er jafnframt U19 landsliðskona Íslands. Hún þykir fylgin sér, metnaðarfullur, spennandi leikmaður. Hún er með skýr og háleit markmið og tekur fótboltaiðkun sína mjög alvarlega. Þrátt fyrir ungan aldur má segja að Ísfold lifi, æfi og hagi sér eins og atvinnumanneskja í íþróttinni.

Jóhann Gunnar Finnsson – Fimleikafélagi Akureyrar

Jóhann Gunnar keppti fyrir hönd Íslands á EM í desember 2021 í blönduðu liði unglinga. Liðið hafnaði í þriðja sæti. Hann var svo í karlaliði Íslands sem hafnaði í 4. sæti á EM í hópfimleikum 2022. Jóhann er á samningi hjá Stjörnunni í Garðabæ og leggur því mikið á sig til að stunda íþrótt sína. Hann stefnir á að vera áfram í íslenska karlalandsliðinu og keppa á stórmótum fyrir Íslands hönd.

Katrín Rós Björnsdóttir – Skautafélagi Akureyrar

Katrín er leikmaður íslenska kvennalandsliðsins í íshokkí. Hún er einn hæfileikaríkasti hokkíleikmaður landsins. Hún hefur vaxið á síðustu árum og spilaði stórt hlutverk í landsliði íslands sem náði sínum besta árangri á heimsmeistarmóti þegar liðið vann gull í 2. deild. Katrín hefur alla burði til að þróast sem leikmaður og ná langt í íþróttinni.

Karen Lind Helgadóttir – Þór

Karen er 19 ára gömul og hefur nú þegar leikið 113 meistaraflokksleiki. Hún spilar stórt hlutverk hjá kvennaliði Þórs. Hún er öflugur liðs- og félagsmaður sem gerir allt fyrir lið sitt og liðsfélaga. Þá hefur hún spilað með yngi landsliðum Íslands og var hluti af U20 ára liði íslands á stórmótum sumarið 2022. Hún stefnir á að verða betri leikmaður, leggja hart að sér og styrkja sig enn meira.

Ormur Karl Jónsson – Skautafélagi Akureyrar

Ormur er 17 ára og þegar orðinn lykilleikmaður í íshokkíliði Skautafélags Akureyrar. Hann er góð fyrirmynd yngri leikmanna og hefur sýnt mikinn metnað og vinnusemi til þess að ná lengra í íþróttinni. Hann spilaði stórt hlutverk í U18 liði Íslands sem vann til silfurverðlauna í 3. deild A á heimsmeistaramóti 2022. Þá var hann einnig í U20 ára liðinu sem tók þátt í heimsmeistaramóti 2. deildar B.

Salka Sverrisdóttir – Fimleikafélagi Akureyrar

Salka þykir ein efnilegasta fimleikakona sem fram hefur komið í starfi FIMAK. Hún er ákveðin, dugleg, með mikinn metnað og hefur mikla athygli á markmiðum sínum. Salka var í liði Íslands sem keppti á Evrópumótinu í september síðastliðnum og átti mjög stóran þátt í árangri liðsins, 3. sæti. Til að æfa í hópfimleikum fer Salka til Reykjavíkur á skylduæfingar og ef hún kemst ekki suður þá mætir hún ein á æfingar í fimleikahúsinu í Giljaskóla.

Skarphéðinn Ívar Einarsson – KA

Skarphéðinn þykir einn af efnilegri handboltamönnum landsins í dag. Hann er fastamaður í 2004 landsliði íslands sem náði flottum árangri á lokamóti EM síðastliðið sumar. Skarphéðinn æfir gríðarlega vel og hefur sýnt það að ekkert vantar uppá metnað og vinnusemi sem er forsenda þess að ná langt. Þá er Skarphéðinn farinn, aðeins 17 ára, að spila stór hlutverk í meistaraflokki KA í handbolta.

Ævar Freyr Valbjörnsson – Skíðafélagi Akureyrar

Ævar er skíðagöngumaður hjá Skíðafélagi Akureyrar. Hann stundar íþrótt sína af mikilli samviskusemi og er frábær fyrirmynd. Hann er mjög meðvitaður um sín markmið og framtíðarplön og hefur alla burði til að ná þeim ef hann heldur sínu striki. Framundan hjá Ævari eru m.a. mót í Noregi sem og innanlands.