Fara í efni
Íþróttir

Ætluðum í úrslit - yrði stórkostegt að vinna

Ætluðum í úrslit - yrði stórkostegt að vinna

„Við náðum okkur ekki nógu vel á strik en ég gæti best trúið að þetta hafi verið besti leikur Hamars í vetur. Lið Hamars er mjög gott og til að eiga möguleika á sigri verðum við að spila eins vel og við getum og möguleikarnir á því eru meiri á heimavelli, fyrir framan stuðningsmenn okkar,“ segir André Collin dos Santos, þjálfari og leikmaður karlaliðs KA í blaki, við Akureyri.net, fyrir leik kvöldsins. Komið er að ögurstundu fyrir KA-menn.

Liðin mættust í fyrsta úrslitaleiknum um Íslandsmeistaratitilinn um síðustu helgi í Hveragerði þar sem heimamenn unnu 3:0. Þau eigast við á ný í kvöld í KA-heimilinu og hefst leikurinn klukkan 19.15. KA þarf að vinna til að knýja fram oddaleik í Hveragerði en sigri gestirnir í kvöld fer Íslandsbikarinn á loft.

„Þeir fengu 14 ása í síðasta leik, sem er allt of mikið; móttakan hjá okkur var ekki nógu góð,“ segir André – en ás er það kallað þegar lið skorar stig beint úr uppgjöf. „Við byrjuðum reyndar mjög vel í leiknum en þeir eru mjög sterkir, ekki síst á heimavelli; þeir eru með fjóra Pólverja sem eru mjög góðir, bræðurna hávöxnu [Kristján og Hafstein Valdimarssyni], sem eru báðir yfir 2 metrar, landsliðsmenn og mjög góðir í miðjublokkinni og libero þeirra er líka í landsliðinu.“

Hann segist ánægður með veturinn. „Þetta hefur verið mjög erfitt keppnistímabil vegna Covid en markmið mitt og félagsins var að komast í úrslitaleikina þannig að ég er ánægður og mjög stoltur af strákunum. Það yrði svo auðvitað stórkostlegt ef okkur tækist að vinna.“

André, Brasilíumaður sem búið hefur mjög lengi á Spáni og starfað þar sem þjálfari um árabil, er bjartsýnn fyrir kvöldið. „Ég get lofað þér því að við erum tilbúnir í stríð! Það eru allir vel stemmdir, nú er öll vinnan baki og ég hef lagt áherslu á það við strákana að við verðum að skemmta okkur. Auðvitað yrði frábært að vinna, en við verðum að hugsa um að brosa og reyna að hafa gaman. Ég vona að það skili sér í því að við spilum aftur á föstudaginn!“

André hefur spilað nánast alla leiki KA í vetur. „Ég er orðinn gamall,“ segir hann og hlær enda átti hann ekki von á að draga fram keppnisskóna á ný. „Ég hef þjálfað lengi en það voru níu ár síðan ég spilaði síðast þegar ég kom hingað! Það var því mikil áskorun að byrja að spila aftur, en gaman.“

Leikurinn verður sýndur beint á sjónvarpsrás KA – smellið hér til að horfa.