Fara í efni
Íþróttir

100. leikur Birkis og Brynjar Ingi bestur

Birkir Bjarnason í leiknum í dag - 100. landsleiknum. Ljósmynd: fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð.
Birkir Bjarnason í leiknum í dag - 100. landsleiknum. Ljósmynd: fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð.

Birk­ir Bjarna­son tók í dag þátt í  100. A-lands­leiknum, eins og Birkir Már Sævarsson, og Brynjar Ingi Bjarnason var besti leikmaður Íslands að mati bæði Vísis og fotbolti.net, þegar liðið gerði 2:2 jafn­tefli gegn Norður-Makedón­íu í undan­keppni HM 2022 á Laugardalsvelli. Aðeins einn hafði áður rofið 100 leikja múrinn með karlalandsliðinu í knattspyrnu, Rúnar Kristinsson sem á 104 landsleiki að baki.

„Ég er bara ótrúlega stoltur. Það er gaman að þessu. Það er enn alltaf gaman að koma hérna og það er besti tíminn fyrir mig að koma í landsliðið og mæta strákunum og spila með þeim,“ sagði Birkir Bjarnason í viðtali við Vísi.

Tvö mörk í fimm leikjum!

Brynjar Ingi var í byrjunarliðinu bæði í dag og í síðasta leik, gegn Rúmeníu á fimmtudaginn. Hann gerði sér lítið fyrir og skoraði í dag, í annað skipti í fimm landsleikjum! Brynjar minnkaði muninn í 2:1; var fyrstur að átta sig eftir að markmaður Norður-Makedóníu varði aukaspyrnu Alberts Guðmundssonar, og sendi boltann í netið af stuttu færi. Þá er vert að geta þess að Brynjar bjargaði á ævintýralegan hátt á línu á lokaandartökum leiksins og kom þar með í veg fyrir tap.

„Brynjar er búinn að taka ótrúlega stór skref á stuttum tíma. Hann er ekki sá eini,“ sagði landsliðsþjálfarinn Arnar Þór Viðarsson á  blaðamannafundi eftir leikinn.

„Þið vitið það allir að við erum að reyna að taka rétt skref með alla þessa drengi. Það er stundum svolítið erfitt. Brynjar Ingi er búinn að byrja tvo leiki og hefur gert það mjög vel, þó það sé fullt af hlutum sem við getum lagað. Hann gerði flest mistök í dag í þessum fjórum leikjum sem hann hefur spilað. Hann gerði líka rosalega marga góða hluti. Það er þetta sem ég og Eiður erum að biðja þá um að gera; þessi mistök svo þeir geti lært af þeim,“ hefur fotbolti.net eftir landsliðsþjálfaranum.

Smellið hér til að lesa ítarlega umfjöllun fotbolti.net um landsleikinn.

Brynjar Ingi Bjarnason bjargar á ævintýralegan hátt á marklínu í blálok leiksins í dag. Ljósmynd: fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð.