Fara í efni
Fréttir

Heiðlóan kosin fugl ársins með glæsibrag

Heiðlóan - sem sumir kalla vorboðann ljúfa (þótt Jónas hafi ort um þröstinn) - og mörgum Íslendingum þykir afar vænt um. Ljósmynd: Jakob Sigurðsson.

Heiðlóan sigraði í kosningu um titilinn fugl ársins 2021. Hún flaug beint á toppinn í atkvæðagreiðslunni og sigraði með glæsibrag þar sem hún fékk bæði flest atkvæði sem fyrsta val kjósenda og var einnig með flest atkvæði samanlagt sem fyrsta til fimmta val. Himbriminn veitti henni harða keppni. Alls bárust 2.054 atkvæði og stóð valið um 20 fugla. Velja mátti fimm fugla og raða þeim í sæti eitt til fimm.

Það er Fuglavernd sem stendur að baki kosningu á fugli ársins. Stefnt er að því að hún verði árlegur viðburður héðan í frá enda voru viðtökurnar frábærar, segir í tilkynningu frá samtökunum. „Keppnin er haldin í þeim tilgangi að vekja athygli á fuglum og þeim ógnum sem að þeim steðja, þar á meðal röskun búsvæða og loftslagsbreytingar. Í hópi fugla sem voru keppendur um titilinn fugl ársins og eru í miklum vanda á Íslandi eru lundi, kría og sendlingur.“

Þriðjungur heiðlóa í heiminum verpir á Íslandi

Staða heiðlóunnar á Íslandi er þó góð og telst stofninn vera hátt í 400 þúsund pör, skv. upplýsingum Fuglaverndar. Hún er algengur og útbreiddur varpfugl og Ísland er mjög mikilvægt búsvæði fyrir heiðlóuna því að um þriðjungur allra heiðlóa í heiminum verpir hér á landi. Heiðlóan er farfugl, stærstur hluti hópsins flýgur á haustin til Írlands, en hún fer einnig til vestasta hluta meginlandsins; Frakklands, Spánar og Portúgal – auk Marokkó nyrst í Afríku – þar sem hún dvelur við strendur og árósa.

Titillinn fugl ársins 2021 er enn ein fjöður í hatt heiðlóunnar, annað fallegt dæmi er að hún sigraði í Bird Eurovision keppninni árið 2002 með fögrum söng sínum. „Heiðlóan er gjarnan kölluð vorboðinn ljúfi og skipar sérstakan sess í hugum landsmanna sem tákn vorkomunnar og er fréttum af fyrstu komu heiðlóunnar á hverju vori ákaft fagnað. Um hana hafa einnig löngum verið ort og kveðin rómantísk ljóð.“

Gott dæmi eru Lóuvísur Stefáns Vagnssonar frá 1929:

Sé ég gróa og grænka kvist
grynnist snjóatakið
vorið hló er heyrði ég fyrst
hlýja lóukvakið 

Að ekki sé talað um Heiðlóarkvæði Jónasar Hallgrímssonar, Heylóarvísu eins og listaskáldið góða kallaði það upphaflega. Margir kunna fyrsta erindið:

Snemma lóan litla í
lofti bláu „dírrindí“
undir sólu syngur:
„lofið gæsku gjafarans!
grænar eru sveitir lands,
fagur himinhringur.

„Heiðlóan stóð ekki ein í sinni kosningabaráttu en sérstök talskona hennar í keppninni var Guðrún Jónsdóttir. Hún lagði dag við nótt við að lyfta heiðlóunni á flug í keppninni, fór í útvarpsviðtöl, opnaði kosningaskrifstofu, var með kosningakaffi á pallinum og lét útbúa sérstakan hringitón í síma með lóusöng. Hún stofnaði einnig fésbókarsíðu fyrir heiðlóuna sem þegar er komin með um 600 fylgjendur.

„Hið ein sanna sameiningartákn“

Allir 20 fuglarnir í framboði höfðu kosningastjóra á sínum snærum, fólk úr ýmsum áttum, á öllum aldri, sem stóð sig með stakri prýði. Margir stofnuðu samfélagsmiðlasíður fyrir sína fugla, gerðu myndbönd, fóru í viðtöl og fuglar fengu jafnvel sína eigin vefsíðu eins og himbriminn. „Fuglavernd þakkar öllum kosningastjórunum kærlega fyrir að leggja fuglum og félaginu lið sitt með þessum hætti og vonar að þau hafi öll haft ánægju af,“ segir í tilkynningunni.

„Lóan er hið eina sanna sameiningartákn þjóðarinnar,“ er haft eftir Guðrúnu Jónsdóttur, talskonu lóunnar. Hún var á því að landsmenn ættu að „sameinast um að kjósa hana fugl ársins til að kveða burt kóf og leiðindi síðasta vetrar og það hafa þeir nú gert.“

Fuglavernd óskar heiðlóunni til hamingju með titilinn og „vonar að sumarið verði henni og hennar fiðruðu bræðrum og systrum gjöfult og gott.“

Þessir fuglar urðu í 10 efstu sætum í kjörinu: 

  1. Heiðlóa
  2. Himbrimi
  3. Rjúpa
  4. Hrafn
  5. Maríuerla
  6. Kría
  7. Hrossagaukur
  8. Lundi
  9. Svartþröstur
  10. Músarrindill