Fara í efni
Fréttir

Vogue fyrir heimilið flytur á Glerártorg

Kristín Þöll Þórsdóttir, verslunarstjóri Vogue fyrir heimilið á Akureyri, í nýju versluninni þegar flutningar stóðu sem hæst. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Verslun Vogue fyrir heimilið í Hofsbót 4 í miðbæ Akureyrar hefur verið lokað, en rekstrarhléið verður stutt því á hádegi á morgun verður opnuð ný verslun í norðurhlið verslunarmiðstöðvarinnar Glerártorgs.

Nýja verslunin er staðsett aftast í gamla Nettó og með inngang sem snýr í norður, út að Borgarbrautinni. Þar hafa verið brotnir niður veggir og komnir stórir búðargluggar og inngangur. Það verður hins vegar ekki innangengt í nýju verslunina af gólfi Glerártorgs þannig að verslunin stendur í raun stök og því óháð annarri starfsemi á Glerártorgi varðandi hvenær verslunin er opin.


Framhlið nýju verslunarinnar. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Betri kostur að fara í nýtt húsnæði

Nýbygging er að rísa við Hofsbót, við hlið hússins þar sem Vouge hefur rekið verslun um árabil. Upphaflega var ætlunin að Vogue flytti sig í hluta þess húsnæðis, en þau áform breyttust. Landsbankinn mun flytja í Hofsbótina, bæði í nýbygginguna og það húsnæði sem Vogue hafði til umráða. Það er kannski bara betri kostur að byrja í nýju húsnæði,” segir Kristín Þöll Þórsdóttir verslunarstjóri, en hún hefur nú stýrt Vogue á Akureyri í 11 ár. Kristín Þöll og hennar fólk var ásamt iðnaðarmönnum að gera klárt á nýja staðnum þegar Akureyri.net leit við í stutt spjall. 


Þau eru mörg handtökin sem fylgja því að flytja heila verslun. Mynd: Haraldur Ingólfsson

Nýja rýmið er tvöfalt stærra en það sem verslunin hefur starfað í hingað til, verslunin fer úr 170 fermetrum í 340, eða um það bil. Kristín Þöll segir nýju verslunina gefa tækifæri til að vera með meira framboð af vörum, meira rými fyrir rúm, fleiri dýnur til sýnis og tekin inn fleiri húsgögn. Verslunin í miðbænum leynir þó á sér því þó hún sé aðeins um 170 fermetrar að stærð býður fyrirtækið upp á mun meiri þjónustu en blaðamaður frá Akureyri.net hafði gert sér grein fyrir. 


Einhverjir af viðskiptavinum Vogue ályktuðu sem svo að rýmingarsalan þýddi brotthvarf Vouge úr bænum, en sú er alls ekki raunin. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Versluninni í Hofsbót 4 var endanlega lokað síðdegis í gær eftir rýmingarsölu. Áformin um flutning á Glerártorg fóru reyndar svo leynt meðal bæjarbúa að Kristín Þöll segir marga viðskiptavini hafa haldið og spurt hvort rýmingarsalan þýddi að Vogue væri bara að hætta á Akureyri. En svo er aldeilis ekki.

Meira en bara vefnaðarvöruverslun

Þetta er nefnilega ekki bara verslun með vefnaðarvörur og dýnur að þjónusta almenning heldur er þjónusta við fyrirtæki og stofnanir einnig stór þáttur í rekstrinum. Vefnaðarvöruverslunum hefur líka fækkað, í raun bara tvær stórar eftir og Vogue er önnur þeirra.

Vogue fyrir heimilið rekur tvær verslanir, eina í Reykjavík og eina á Akureyri, en starfsemin er þó mun fjölbreytilegri en það því rekstrinum má skipta í þrennt, verslanir, heildverslun og framleiðslu. Vogue hf. var stofnað 1951, en fyrirtækið eins og það er í dag á ættir að rekja til fimm gamalgróinna fyrirtækja sem öll voru þekkt á sínu sviði, að því er fram kemur á vef þess. Hin fjögur fyrirtækin eru svamp- og dýnuframleiðendurnir Pétur Snæland hf. (1949), Lystadún hf. (1956), efna- og áklæðaheildsalan S. Ármann Magnússon (1953) og Marco hf. (1987).


Unnið að standsetningu á nýja staðnum. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Framleiðsluvörur fyrirtækisins eru til dæmis heilsudýnur, rúmbotnar, höfðagaflar, raðsófar, svefnsófar, gluggatjöld, leikföng úr svampi og fleira, auk þess sem fyrirtækið sérsníður svamp fyrir húsgagnaframleiðendur og bólstrara, sérframleiðir dýnur fyrir skip og báta, sumarhús, hjólhýsi og fleira. Vouge á Akureyri þjónustar því til dæmis alla grunnskólana á Akureyri og næsta nágrenni varðandi vefnaðarvörur, svo dæmi sé tekið. Dæmi um viðskiptavini, auk skóla á öllum stigum, eru sjúkrahús og heilsustofnanir, hótel og gistiheimili, útgerðir og húsgagnabólstrarar.