Fara í efni
Fréttir

VMA varðveitir gögn um byggingu skólans

Þorsteinn Geirharðsson arkitekt og Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari VMA. Mynd af vef skólans.

Þorsteinn Geirharðsson arkitekt afhenti síðastliðinn föstudag Sigríði Huld Jónsdóttur skólameistara, fyrir hönd Verkmenntaskólans á Akureyri, með formlegum hætti mikið magn af gögnum af ýmsu tagi sem arkitekt skólans og faðir Þorsteins, Geirharður Þorsteinsson, hafði haldið til haga og geymt á vísum stað.

„Ég get ekki neitað því að það greip mig nostalgíutilfinning að ganga hér um skólann, það rifjaðist eitt og annað upp. Ég er mjög ánægður fyrir pabba hönd og sjálfs mín og er stoltur af þessari byggingu. Í gegnum tíðina hef ég fengið mjög jákvæð viðbrögð um þessi húsakynni frá nemendum sem hafa verið hér. Ég tel að almennt megi segja að það hafi verið mikil natni í hönnun og öllum frágangi við húsið. Það eru margar og skemmtilegar efnisáferðir og litir í húsinu. Fólki finnst byggingin margbreytileg og hún vekur sterkar minningar fólks. Það er gefandi og skemmtilegt,“ segir Þorsteinn í viðtali við heimasíðu VMA. Um er að ræða vinnugögn sem tengjast hönnun og byggingu Verkmenntaskólans á sínum tíma. Geirharður lést árið 2017. Þorsteinn þekkir líka mjög vel til húsakynna VMA enda starfaði hann um tíma með föður sínum og tók síðan við keflinu og teiknaði nýjustu álmur skólans.

Stærsta verk Geirharðs

„Verkmenntaskólinn var stærsta verk pabba, hans stóra verkefni. Hann teiknaði reyndar ekki allt húsið því ég tók við verkinu þegar ráðist var í að byggja sjötta áfanga af tíu. Ég hélt áfram með húsið í sama anda og pabbi hafði lagt línur með. Hann og hans samstarfsmenn höfðu lagt grunninn í fyrstu áföngum hússins,“ segir Þorsteinn.

„Ég þori ekki að segja hver var grunnhugmynd föður míns við hönnun hússins og útlit þess en ég veit að það var mikill metnaður hjá honum og öllum þeim sem að þessu verki komu í upphafi, þar með talið byggingarnefndinni. Meðal annars var farið til Danmerkur til þess að kynna sér og sjá ýmis framhaldsskólahús og ég veit að pabbi og nefndarmenn voru undir miklum áhrifum af því sem fyrir augu bar í Danmörku. Það sem vekur nokkra athygli, í samanburði við marga framhaldsskóla, er að það var ákveðið að skólinn skyldi vera á einni hæð. Hver nákvæmlega röksemdin var fyrir því veit ég ekki en auðvitað tekur hann mikið landrými og ég vil lýsa skólanum miklu frekar sem skólaþorpi en byggingu,“ segir Þorsteinn Geirharðsson.

Smellið hér til að lesa nánar um málið á vef VMA.

Smellið hér til að sjá myndir af afhendingu gagnanna.