Fara í efni
Fréttir

VMA býður upp á nám í húsasmíði í kvöldskóla

Kennt verður í húsakynnum byggingadeildar VMA, þar sem myndin er tekin.

Boðið verður upp á húsasmíðanám í kvöldskóla í Verkmenntaskólanum á Akureyri frá og með næsta haust ef næg þátttaka fæst. Námið tekur fjórar annir og er miðað við að nemandi hafi náð 23 ára aldri og/eða hafi viðeigandi starfsreynslu. Nemendur sem hafa undirgengist raunfærnimat fá viðkomandi áfanga metna. Frá þessu er greint á vef skólans.

Helgi Valur Harðarson, brautarstjóri byggingadeildar VMA, segir þar að töluvert hafi verið spurt um slíkt nám og því segist hann gera sér vonir um að aðsóknin verði góð. „Við höfum fengið mikið af fyrirspurnum um slíkt nám og það hefur verið kallað eftir þessu. Hugmyndin er að fara af stað með einn námshóp og að hann klári sitt nám og síðan verði tekinn inn annar hópur að tveimur árum liðnum. En þetta verður bara að koma í ljós, það ræðst af aðsókninni,“ segir Helgi.

Miðað verður við kennslu mánudaga til miðvikudaga frá kl 17:00-21:00 í húsakynnum byggingadeildar VMA. Kennsla hefst 23. ágúst 2021 og stendur í 16 vikur á haustönn. Krafist verður 100% mætingar í náminu.

Nánar hér á heimasíðu skólans.