Fara í efni
Fréttir

VMA: 131 nemandi var brautskráður

Brautskráningarhátíð VMA í Hofi á laugardaginn. Skólameistari, Sigríður Huld Jónsdóttir, í pontu. Ljósmynd: Hilmar Friðjónsson.

Verkmenntaskólanum á Akureyri var slitið á laugardaginn í menningarhúsinu Hofi og 131 nemandi brautskráðist þá frá skólanum, með 151 skírteini – 20 nemendur brautskráðust með tvö skírteini. Alls hefur VMA útskrifað 225 nemendur á þessu skólaári því 94 voru útskrifaðir í desember.

Anamaria-Lorena Hagiu, nýstúdent af listnáms- og hönnunarbraut, var dúx skólans – hlaut hæstu einkunn þeirra sem brautskráðust að þessu sinni. Fyrir það fékk hún verðlaun, hún hlaut einnig verðlaun fyrir bestan árangur í myndlistargreinum listnámsbrautar og spænskuverðlaun.

  • Anamaria-Lorena Hagiu er á meðfylgjandi mynd. Fjöldi annarra verðlauna var afhentur við athöfnina – nánar um þau á vef skólans.

Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari sagði í brautskráningarræðu sinni að dagurinn væri sannur gleðidagur og mikill léttir væri að geta haft brautskráningarathöfnina með þessum hætti í Hofi þó svo að hún tæki óhjákvæmilega mið af sóttvarnareglum.

Dugnaður, þrautseigja, æðruleysi

Sigríður Huld nefndi að hún og aðrir stjórnendur skólans hafi þurft að velta sóttvörnum mikið fyrir sér í vetur og það hafi vart farið fram hjá nemendum. „Þið hafið örugglega verið komin með nóg af þessum stundum allt of löngu tölvupóstum með flóknum útskýringum um sóttvarnahólf, fjarlægðarmörk, handþvott, sótthreinsun á kennslustofum og grímunotkun. Og vonandi þarf ég aldrei aftur að segja við nemendur VMA að öll hópamyndun sé bönnuð innan veggja skólans,“ sagði Sigríður Huld. „Klisjan um fordæmalausa tíma mun fylgja okkur eitthvað áfram þótt margt í okkar daglega lífi sé að verða líkara því sem við þekktum í lok árs 2019. Á þessari stundu vil ég segja við nemendur VMA: þið hafið staðið ykkur frábærlega í vetur. Þið hafið sýnt dugnað, þrautseigju og æðruleysi í þeim aðstæðum sem við höfum þurft að starfa í. Kennarar og annað starfsfólk skólans á líka miklar þakkir skilið fyrir sitt framlag til nemenda og skólans. Ég vil biðja alla í salnum og hér á sviðinu að klappa fyrir ykkur sjálfum, samnemendum, kennurum og starfsfólki VMA.“

131 nemandi brautskráður

Að þessu sinni var 131 nemandi brautskráður frá skólanum. Skipting brautskráningarnema á brautir var sem hér segir:

  • Sérnámsbraut 6 
  • Starfsbraut 3
  • Húsasmíði 8
  • Rafvirkjun 19
  • Stálsmíði 1
  • Vélvirkjun 3
  • Vélstjórn 15
  • Iðnmeistarar 23
  • Sjúkraliðabraut + stúdentspróf að loknu sjúkraliðanámi 1
  • Viðbótarnám að loknu verknámi - stúdentspróf 6
  • Félags- og hugvísindabraut - stúdentspróf 6
  • Fjölgreinabraut - stúdentspróf 11
  • Íþrótta- og lýðheilsubraut - stúdentspróf 4
  • Listnáms- og hönnunarbraut / myndlistarlína - stúdentspróf 16
  • Náttúruvísindabraut - stúdentspróf 4
  • Viðskipta- og hagfræðibraut - stúdentspróf 5

Eitthvert félagslíf, sem betur fer

Sigríður Huld skólameistari sagði að sem betur fer hafi félagslíf ekki þurrkast út í vetur vegna Covid. Hæst hafi borið uppfærsla Leikfélags VMA á Grís á Gryfjunni í febrúar og mars og þá hafi Þórduna staðið fyrir minni viðburðum, eins og sóttvarnareglur leyfðu, t.d. hafi bollur verið gefnar á bolludaginn, rafræn árshátíð hafi verið haldin og minniháttar dimmiso nú í lok annar.

„Það verður því verðugt verkefni fyrir nýja stjórn Þórdunu að takast á við félagslífið af fullum krafti næsta haust. Það verður vonandi hægt að halda nýnemahátíð, böll, koma klúbbastarfi í gang og síðast en ekki síst vera saman og ég hreinlega ætlast til að það verði hópamyndanir á göngum skólans og í Gryfjunni. Ég vil þakka stjórn nemendafélagsins Þórdunu fyrir vel unnin störf á þessu skólaári og óska nýrri stjórn velfarnaðar í því krefjandi hlutverki sem hún fær á næsta hausti við að virkja aftur nemendur VMA í félagslífinu.“

Smellið hér til að lesa nánar um brautskráninguna á vef VMA.

Hér að neðan eru nokkrar myndir sem Hilmar Friðjónsson kennari tók við brautskráninguna. Smellið hér til að skoða fjölmargar fleiri myndir Hilmars  frá því á laugardaginn.