Fara í efni
Fréttir

Vinnubrögð SÍ vonbrigði og ekki til eftirbreytni

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri.

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, gagnrýndi vinnubrögð Sjúkratrygginga Íslands harðlega, þegar rekstur hjúkrunarheimila var ræddur á fundi bæjarstjórnar í gær. Ræða hennar fer hér á eftir:

„Akureyrarbær tilkynnti síðasta vor að rekstarsamingur við Sjúkratryggingar Íslands um hjúkrunarheimilin í bænum yrði ekki endurnýjaður, enda stóð ekki til að hækka framlög ríkisins til rekstrar hjúkrunarheimila og rekstrarvandi Akureyrarbæjar vegna Öldrunarheimila Akureyrar er áralangur og mikill. Samþykkt var með öllum greiddum atkvæðum í bæjarstjórn að endurnýja ekki samning við ríkið.

Á höfuðborgarsvæðinu eru flest hjúkrunarheimilin rekin af einkaaðilum en ekki sveitarfélögum eins og víða er á landsbyggðinni. Auk Akureyrarbæjar hafa Vestmannaeyjabær, Höfn í Hornafirði og Fjarðabyggð ákveðið að endurnýja ekki samninga sína við ríkið um rekstur hjúkrunarheimilanna. Fleiri eru að íhuga stöðu sína enda glíma flest ef ekki öll hjúkrunarheimili sem rekin eru af sveitarfélögunum við mjög alvarlegan rekstrarvanda.

Undirbúningur að yfirfærslunni hófst um mitt sumar eftir að Akureyrarbær kallaði eftir viðbrögðum heilbrigðisráðuneytisins og Sjúkratrygginga Íslands við ákvörðun bæjarstjórnar. Fyrst um sinn miðaði verkinu vel og voru aðilar sammála um að láta yfirfærsluna ganga greiðlega fyrir sig. Í ágúst var tilkynnt að HSN [Heilbrigðisstofnun Norðurlands] tæki við rekstri Öldrunarheimila Akureyrar. Undirbúningur var hafinn og var haft að leiðarljósi að breytingarnar bitnuðu ekki á velferð íbúa eða stöðu starfsmanna. Var ákveðið að hafa sambærilegan hátt á og þegar Heilsugæslan á Akureyri var færð yfir til ríkisins á sínum tíma, en þá var ákveðið að lög um aðilaskipti myndu gilda fyrir starfsfólkið. Samþykkt var af hálfu heilbrigðisráðuneytisins og Sjúkratrygginga að lögin myndu sömuleiðis gilda við þessa yfirfærslu, sem var ánægjuefni. Þannig mætti koma í veg fyrir að segja þyrfti upp starfsfólki og auglýsa störfin að nýju með tilheyrandi óþægindum. Komst vinnan á nokkurn rekspöl og var talsvert mikið í hana lagt af hálfu starfsfólks Akureyrarbæjar og Sjúkratrygginga vegna bókhaldsmála, búnaðarlista og húsnæðismála. Fundir voru haldnir með starfsfólki og stéttarfélögum og bréf varðandi yfirfærsluna send út til allra starfsmanna með upplýsingum um að aðilaskiptalög giltu.

Í haust breyttust forsendur óvænt og var tilkynnt að HSN myndi ekki taka við rekstri Öldrunarheimila Akureyrar. Engar upplýsingar voru gefnar um hver ætti að taka við keflinu í stað HSN eða hvers vegna þessi stefnubreyting varð. Voru þetta vægt til orða tekið talsverð vonbrigði, sem settu allt ferlið í uppnám. Eftir umtalsverðan eftirrekstur Akureyrarbæjar var á endanum samið um framlengingu á samningnum milli Akureyrarbæjar og Sjúkratrygginga Íslands. Þetta var í desember 2020 en það var gert eftir að Akureyrarbær leitaði til ráðherra heilbrigðismála, fjármálaráðherra og forseta Alþingis um lausn mála, enda lá þá ljóst fyrir að Sjúkratryggingar gætu ekki tekið við rekstrinum í árslok. Niðurstaðan var framlenging til fjögurra mánaða, eða til 30. apríl næstkomandi og jafnframt óskaði Akureyrarbær eftir því að strax yrði farið í að undirbúa aðilaskipti þannig að þau mættu ganga greiðlega fyrir sig. Því erindi var ekki svarað. Nú var staðan orðin sú að segja má að SÍ hafi virt Akureyrarbæ að vettugi og svarað erindum okkar seint eða alls ekki.

[Rétt er að geta þess, eins og formaður bæjarráðs nefndi hér áðan, að Akureyrarbær fær tæpar 27 milljónir á mánuði til viðbótar við daggjöldin á þessum fjórum mánuði sem sveitarfélagið mun sjá um reksturinn.]

Allt frá því snemma í haust hafa sveitarfélögin sem höfðu sagt upp samningum um rekstur hjúkrunarheimila, Akureyrarbær, Vestmannaeyjabær, Höfn og Fjarðabyggð, haft samráð sín á milli og upplýst Samband íslenskra sveitarfélaga um gang viðræðna. Í desember var orðið ljóst að trúnaðarbrestur hafði orðið á milli SÍ og sveitarfélaganna sem um ræðir. Öll voru þau í sömu stöðu og Akureyrarbær og sum í sýnu verri stöðu. Forsvarsmenn SÍ báru óljósar upplýsingar og staðhæfingar á milli aðila og var tilgangurinn augljóslega sá að pína sveitarfélögin til að halda áfram rekstri hjúkrunarheimilanna hvað sem tautaði og raulaði. Það hlýtur að teljast mjög alvarlegt þegar opinber stofnun verður uppvís að slíkum vinnubrögðum og það voru mér og starfsfólki mínu mikil vonbrigði þegar kom í ljós hvers kyns var. Ég taldi að viðræðurnar við SÍ færu fram af fullum heilindum en annað kom á daginn þegar sveitarfélögin báru saman bækur sínar og ljóst var að forstjóri SÍ bar ólíkar upplýsingar á milli aðila. Þetta hleypti eðlilega meiri hörku í samskiptin á milli, annars vegar sveitarfélaganna, og hins vegar SÍ. Því var loks ákveðið að fá til liðs við Akureyrarbæ vana samningamenn og gætir Heiðar Ásberg Atlason hæstaréttarlögmaður hjá Logos lögmannsþjónustu nú hagsmuna Akureyrarbæjar gagnvart Sjúkratryggingum Íslands.

Sjúkratryggingar Íslands tilkynntu loks 26. janúar síðastliðinn að auglýsa ætti eftir nýjum aðilum til að sjá um rekstur öldrunarheimila. Þrátt fyrir ítrekaðar óskir hefur sveitarfélagið ekki fengið upplýsingar hvernig standa eigi að aðilaskiptum eða undirbúningi. Auglýsingin birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 30. janúar síðastliðinn og frestur fyrir áhugasama rekstraraðila til að tilkynna sig til Sjúkratrygginga Íslands rann út í gær, 15. febrúar. Akureyrarbær hefur ekki fengið frekar upplýsingar um nánari útfærslur eða næstu skref. Hins vegar á bærinn fund með Sjúkratryggingum á morgun og til umræðu verða helstu atriði yfirfærslunnar, starfsmannamál og húsnæðismál, enda mikilvægt að fá botn í þau.

Rétt er að geta þess, að við höfum sent bréf til Sjúkratrygginga þar sem ítrekað hefur verið mikilvægi þess að fá upplýsingar um starfsmannamálin og hvort að hægt sé að ráða inn sumarstarfsmenn, þannig að starfsemin verði ekki öll í uppnámi. Rétt er að geta þess að ef reksturinn flyst yfir til sjálfseignarstofnunar eða fyrirtækis í eigu ríkisins, gilda lög um aðilaskipti sem þýðir að öll réttindi starfsmanna framseljast til nýs rekstraraðila.

Nú eru rúmir tveir mánuðir þar til framlengdur samningur SÍ og Akureyrarbæjar fellur úr gildi. Ég vona svo sannarlega að Sjúkratryggingar Íslands standi í lappirnar, hnýti sem fyrst alla lausa enda og vinni með Akureyrarbæ að því að eyða þeirri óvissu sem nú ríkir um það sem koma skal. Staðan er grafalvarleg og í raun óboðleg fyrir okkur öll, en ekki síst fyrir íbúa og starfsfólk hjúkrunarheimilanna. Í síðustu viku fékk allt starfsfólk Öldrunarheimilanna bréf með upplýsingum um stöðuna og svo átti ég fund með stjórnendum Öldrunarheimilanna þar sem við fórum yfir málin með hispurslausum hætti.

Ég fer ekki í launkofa með þá skoðun mína að öll meðferð þessa máls hjá viðsemjendum okkar hefur valdið mér miklum vonbrigðum og er að mínu viti alls ekki til eftirbreytni. Akureyrarbær hefur ítrekað óskað eftir svörum, ýtt á eftir því að vinnan verði kláruð og jafnframt lagt til tillögur um næstu skref.

Sú vinna, sem Sjúkratryggingar hófu nú bara rétt um áramót er vinna sem þeir hefðu átt að hefja strax um leið og við sögðum upp samningnum. En öllum óskum okkar um svör hefur lítið eða ekki verið sinnt af hálfu Sjúkratrygginga, og engar tillögur lagðar fram um tímasetta áætlun svo ljúka megi málinu farsællega, þrátt fyrir ítrekaðar óskir þar um. Rétt er að geta þess að Akureyrarbær sendi áætlun um viðræður strax í júlí en því bréfi var aldrei svarað.

Góðir bæjarfulltrúar. Ég er bjartsýn að eðlisfari og ennþá hef ég þó nokkra trú á skilvirkri, íslenskri stjórnsýslu. Það er ljóst að algjör gjörbreyting verður að verða á þjónustu við aldraða í landinu. Kostnaður við rekstur hjúkrunarheimila mun bara hækka á næstu árum og þjónustuþörfin aukast. Þess vegna þarf að skoða fleiri leiðir heldur en einungis rekstur hjúkrunarheimila. En því miður hefur hingað til – ég segi hingað til – verið takmarkaður áhugi á málefnum aldraðra. Ég kalla því eftir stefnumótun í málaflokknum, og þá er ég að tala um á landsvísu. Akureyrarbær mun hér eftir sem hingað til leggja ofuráherslu á að yfirfærslan klárist hratt og örugglega á réttum tíma. Það er mikilvægast fyrir okkur öll.“