Fara í efni
Fréttir

Vinna ekki hafin, Arnar „gríðarlega ósáttur“

Arnar Grétarsson, þjálfari knattspyrnuliðs KA. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.
Arnar Grétarsson, þjálfari knattspyrnuliðs KA. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Arnar Grétarsson, þjálfari knattspyrnuliðs KA, er gríðarlega ósáttur við að framkvæmdir séu ekki hafnar við nýjan fótboltavöll á svæði félagsins. Hann telur aðstöðu liðsins ekki boðlega og segir til dæmis í viðtalið við DV/433 að gervigrasið á félagssvæðinu sé handónýtt.

Arnar segir í viðtalinu að við lok síðasta keppnistímabils hafi honum verið sagt að 99,9% líkur væru á því að félagið myndi fá nýjan völl á næsta ári „en það er ekki byrjað að grafa. Ég er gríðarlega ósáttur við þetta. Ég er mjög metnaðarfullur og vil ná árangri, ég tel mig vera með þannig lið á Akureyri að við getum náð árangri en forsendan til þess að taka næsta skref er að fá betri aðstöðu,“ segir hann.

Sorglegt

„Þetta er stórt bæjarfélag og mér finnst það sorglegt hvað bæjaryfirvöld eru að draga lappirnar fram og til baka í þessu máli vegna þess að við búum til dæmis við allt aðrar aðstæður á veturna fyrir norðan heldur en hér á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Arnar.

Tilkynnt var í haust að Arnar yrði áfram þjálfari KA og hann segir forsendu þess í raun hafa verið þá að félagið fengi betri aðstöðu fyrir næsta sumar. „Við getum alveg talað hreina íslensku í þeim efnum. Auðvitað vill maður halda þessu verkefni áfram því mér finnst það spennandi og gaman, ég er með flottan hóp í höndunum.“ Hann segist halda í vonina en ekki sé byrjað að grafa og ef ekki verði skipt um jarðveg fyrir áramót verði nýr völlur ekki tilbúinn í maí. Það verði í fyrsta lagi í júní eða júní. „Sem er sorglegt.“

Smellið hér til að horfa á viðtalið við Arnar.