Fara í efni
Fréttir

„Vinátta er okkur öllum afar mikilvæg“

Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari VMA, með nokkrum nýstúdentum eftir brautskráninguna í gær. Ljósmyndir: Hilmar Friðjónsson

Sigríði Huld Jónsdóttur, skólameistara Verkmenntaskólans á Akureyri, varð tíðrætt um vináttuna í gær þegar hún brautskráði 93 nemendur við hátíðlega athöfn í menningarhúsinu Hofi.

„Vinátta getur breytt lífi okkar og það oftast til góðs. Að eiga góða vini sem tekur vinum sínum eins og þeir eru getur verið huggun þegar eitthvað bjátar á hjá okkur,“ sagði skólameistari. „Við lærum svo margt í mannlegri hegðun í gegnum vini okkar. Samkennd, hjálpsemi, finna að það sé einhver sem þarf á manni að halda en líka hvernig við getum tekist á við mótlæti því það reynir alltaf á sanna vináttu einhvern tímann. Það koma upp árekstrar og mótlæti og þá þurfum við að kunna að takast á við það. Við þurfum að læra að taka öðru fólki – líka vinum okkar – eins og það er.“

Veður og færð setti eilítið strik í reikninginn, eins og það er orðað á vef VMA, og því voru færri brautskráningarnemar og gestir viðstaddir brautskráninguna en ella. Þeim sem ekki komust á brautskráninguna gafst kostur á að fylgjast með henni í beinu streymi.

Minningar um fólk

„Vinátta er okkur öllum afar mikilvæg og hún er svo margt í okkar daglega lífi. Samskipti við annað fólk nærir okkur en getur líka verið að éta okkur upp ef við eigum í erfiðum samskiptum. Lífið er og verður alltaf þannig að við munum eiga góða daga og erfiða daga. Það hvernig við byggjum upp samskipti og vináttu við annað fólk verður ekki kennt í skólastofu eingöngu. Við lærum mannleg samskipti með því að umgangast annað fólk og þannig verður vinátta til,“ sagði skólameistari í gær.

Sigríður Huld sagði við útskriftarhópinn: „Þið sem eruð hér á sviðinu hugsið einhvern tímann í framtíðinni örugglega ekki um hvernig prófið í íslensku var byggt upp eða hvort þið voruð spurð um hvíldarpúls eða ekki í heilsueflingu – eða hvað áfanginn hét og hve margar einingar hann var. Hvort áfanginn var í Moodle eða Innu eða hvort þið lásuð bókina sem var í námsáætluninni. Ég er nokkuð viss um að þetta verður samt allt þarna sem ykkar veganesti inn í framtíðina og í einhverju samhengi við það sem þið eruð að klára hér í dag – en smáatriðin sem tilheyra áföngum, námi og kennslu verða örugglega gleymd. Smáatriðin sem bæði nemendur og kennarar eru uppteknir af í námsmati en gleymast mörg hver jafnharðan. Þið megið ekki misskilja mig, þetta skiptir allt máli í stóra samhenginu, í þekkingu og færni ykkar til framtíðar og því hvernig okkur hefur tekist til að tengja þekkinguna saman við hæfni ykkar. En þetta eru örugglega ekki þær minningar sem munu fyrst koma upp þegar þið hugsið til tíma ykkar í VMA. Það sem þið munið hugsa um eru minningar um fólk, samnemendur og starfsfólk skólans.“

Hilmar Friðjónsson kennari við skólann var með myndavélina á lofti eins og áður við brautskráningu og raunar við ýmis tilefni í starfi skólans. Með því að smella hér má sjá mikinn fjölda mynda Hilmars.

Nánar hér um brautskráninguna á vef VMA.

Skipting brautskráningarnema á brautir var eftirfarandi:

  • Rafvirkjun – 12 (þar af 4 með viðbótarnám til stúdentsprófs)
  • Vélstjórn – 2 (1 með B-réttindi og 1 með D-réttindi+stúdent)
  • Viðbótarnám til stúdentsprófs að loknu iðnnámi - 1
  • Iðnmeistarar – 27
  • Matartækni – 8
  • Bifvélavirkjun - 9 (þar af 3 með viðbótarnám til stúdentsprófs)
  • Félags- og hugvísindabraut (stúdentspróf) - 7
  • Fjölgreinabraut (stúdentspróf) - 11
  • Íþrótta- og lýðheilsubraut (stúdentspróf) - 2
  • Listnáms- og hönnunarbraut - myndlistarlína (stúdentspróf) - 7
  • Náttúruvísindabraut (stúdentspróf) - 1
  • Viðskipta- og hagfræðibraut (stúdentspróf) - 1
  • Sjúkraliðabraut – 5 (þar af 2 með viðbótarnám til stúdentsprófs)