Fara í efni
Fréttir

Viltu tilnefna konu til viðurkenningar FKA?

Viðurkenningarhafar 2020; Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir, Anna Stefánsdóttir og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir sem tóku við FKA viðurkenningunni, FKA þakkarviðurkenningunni og FKA hvatningarviðurkenningunni.

Félag kvenna í atvinnulífinu, FKA, heiðrar konur á árlegri viðurkenningarhátíð félagsins snemma árs og leitar nú eftir tilnefningum. Allir sem vilja geta tilnefnt konur.

Að vanda verða veittar viðurkenningar á hátíðinni til þriggja kvenna sem hafa verið konum í atvinnulífinu hvatning og fyrirmynd, segir í tilkynningu frá félaginu. „Konurnar sem tilnefndar eru þurfa ekki að vera félagskonur FKA heldur hvaðan sem er úr samfélaginu, hægt er að tilnefna í einum flokki eða öllum og allir geta sent inn tilnefningu,“ segir þar.

„Það er mikilvægt að beina kastaranum að flottum fyrirmyndum, fjölbreytileika og fá nöfn af fjölbreyttum hópi kvenna á lista og nöfn kvenna af öllu landinu, sem dómnefnd mun vinna með og á endanum velja þær konur sem verða heiðraðar af FKA í janúar 2022.“

Sjö manna dómnefnd fer yfir allar tilnefningar og úrslit verða kynnt á FKA Viðurkenningarhátíðinni þann 20. janúar 2022 á Grand Hótel Reykjavík. Hægt er að tilnefna á heimasíðu FKA til og með 25. nóvember 2021.

Á FKA viðurkenningarhátíðinni 2022 verða veittar þrjár viðurkenningar:

  • FKA viðurkenningin
  • FKA þakkarviðurkenningin
  • FKA hvatningarviðurkenningin

Í tilkynningu frá FAK segir: „Öll kyn úr framlínu íslensks viðskipta- og atvinnulífs mæta á Viðurkenningarhátíð FKA og ríkir mikil eftirvænting því vegna aðstæðna í samfélaginu á tímum heimsfaraldurs kórónuveiru var Viðurkenningarhátíð FKA síðast haldin hátíðleg í sjónvarpsþætti. „Niðurtalning í Hátíðina hófst með þáttaröðinni Stjórnandinn með Huldu Bjarnadóttur sem vakti gríðarlega lukku en mikilvægt er að nálgast hlutina með nýjum hætti í takt við nýja tíma. En nú stefnum við á að hittast í raunheimum líka og gleðjast með konunum á Grand Hótel sem verða heiðraðar í ár“.“

Hægt er að tilnefna  í einum flokki, tveimur eða öllum, á heimasíðu félagsins - smellið hér til að fara inn á síðuna.